Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Árið 2007 var hefðbundið ár í þjóðgarðinum. Vorið var kalt en sumarið var bæði sólríkt og hlýtt. Margir sóttu þjóðgarðinn heim og þátttaka í ferðum og uppákomum þjóðgarðsins var mun meiri en árinu áður. Alls tóku um ellefu hundruð manns þátt í einhverjum þeirra viðburða sem þjóðgarðurinn sá um.

Eftir nokkurt hlé var haldið áfram við vegavinnu fyrir Jökul og bundið slitlag lagt á kaflann frá Saxhóli og að Purrkhólum. Var vegurinn þar af leiðandi erfiður yfirferðar megnið af sumrinu en bylting til hins betra þegar slitlagið var komið. Ljúka á við að leggja slitlag sumarið 2008.

Í byrjun árs tók nýr forstjóri við störfum hjá Umhverfisstofnun og fleiri breytingar urðu hjá stofnuninni eins og kemur fram í lokaorðum. Nýr umhverfisráðherra tók einnig við embætti eftir alþingiskosningar. Á vorþingi var frumvarp um stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs samþykkt og verða þjóðgarðarnir í Skaftafelli og í Jökulsárgljúfrum hluti hans.

Þau ánægjlegu tíðindi bárust að ríkisstjórnin hefði ákveðið að verja 200 milljónum króna næstu fjögur ár til byggingar þjóðgarðsmiðstöðvar Þjóðgarðsins Snæfellsjökuls sem rísa mun á Hellissandi. Samkeppni um hana fór fram árið 2006. Unnið var við hönnun hússins og á henni að verða lokið í nóvember á þessu ári. Gert er ráð fyrir að umhverfisráðherra taki fyrstu skóflustungu að húsinu í haust. Áætlað er að bjóða verkið út í vetur og gert ráð fyrir að það verði fullbúið á tíu ára afmæli þjóðgarðsins í júní 2011.

Í ársskýrslunni er greint frá helstu verkefnum þjóðgarðsins á árinu.