Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Umhverfisstofnun hefur gefið út starfsleyfi fyrir spilliefnamóttöku Hringrásar ehf. á Reyðarfirði. Starfsleyfið veitir heimild til móttöku á allt að 60 tonnum af hvers konar spilliefnum á ári. Starfsleyfið lá frammi til kynningar á tímabilinu 18. júní til 13. ágúst síðastliðinn. Heilbrigðiseftirlit Austurlands hefur eftirlit með starfseminni samkvæmt samkomulagi við Umhverfisstofnun.

Samkvæmt starfsleyfinu er Hringrás ehf. heimilt að taka á móti sóttmenguðum úrgangi, rafeindatækjum, heimilistækjum og ísskápum. Auk þess hefur fyrirtækið heimild til að taka við úr sér gengnum ökutækjum. Úr ökutækjunum skulu rafgeymar fjarlægðir, öryggispúðar og sprengihleðslur þeirra, eldsneyti, allar gerðir olía, kælivökva, vökva úr loftkælingum og önnur spilliefni sem fyrirfinnast í ökutækum og valdið geta mengun umhverfisins. Einnig skal fjarlægja alla íhluti sem vitað er að geti innihaldið kvikasilfur, blý, kadmíum og sexgilt króm.

Starfsleyfið var veitt 9. september og gildir til 1. september 2020 eða til næstu 12 ára. Starfsleyfið skal að jafnaði endurskoðað á fjögurra ára fresti.

Ákvörðun Umhverfisstofnunar um útgáfu starfsleyfis er kæranleg til fullnaðarúrskurðar umhverfisráðherra innan tveggja vikna frá ákvörðun Umhverfisstofnunar skv. 1. mgr. 33. gr. reglugerðar nr. 785/1998, um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun, sbr. 2. mgr. 32. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir.