Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Í dag, 14. nóvember, eru 45 ár liðin frá því að skipsáhöfnin á Ísleifi II frá Vestmannaeyjum urðu varir við eldgos, 18 km suðvestur af Heimaey. Þetta var fyrsta vitneskja manna um Surtseyjargosið, en talið er líklegt að það hafi byrjað nokkrum dögum fyrr sem neðansjávargos á 400 m langri gossprungu á um 130 metra sjávardýpi.

Gosið magnaðist eftir því sem á leið daginn og 15. nóvember hafði myndast 10 metra há eyja eða samtals 140 metra hátt eldfjall ef miðað er við hæð frá hafsbotni. Surtseyjargosið varð lengsta eldgos Íslandssögunnar, en því lauk 5. júní 1967. Surtseyjargosið vakti heimsathygli á sínum tíma og í dag er Surtsey einstök náttúruperla á heimsmælikvarða.

Á heimasíðu Sigurgeirs Jónassonar ljósmyndara má sjá myndir af eldsumbrotunum í Surtsey og meðal annars ljósmyndirnar sem teknar voru 14. nóvember 1963.

Eftirfarandi myndir tók Lovísa Ásbjörnsdóttir í Surtsey síðastliðið sumar.