Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Fróðleg umræða hefur verið í fjölmiðlum undanfarna daga í framhaldi af hvalreka á Reynisfjöru í síðustu viku og hugmyndir um að hvalurinn hafi orðið fyrir jafnvægisuggum á Herjólfi og drepist við það.

Vegna þessarar umræðu er ástæða til að rekja í stuttu máli umræðu sem nú er hafin í umhverfisnefnd (MEPC) Alþjóða Siglingamálastofnunarinnar (IMO) um slík tilvik á höfunum. Málið var fyrst tekið upp á fundi nefndarinnar árið 2006 og á síðasta fundi (október 2008) var hafin vinna við leiðbeiningar sem miða að því að lágmarka líkur og áhættu af árekstrum skipa og hvala. Hér má jafnframt vísa til þess að á fundi alþjóða hvalveiðiráðsins í apríl 2008 voru lagðar fram upplýsingar um 763 tilvik þar sem hvalir höfðu orðið fyrir skipum. Þegar rýnt er í gögnin vekur athygli mikil aukning tilvika eftir miðja síðustu öld og virðist fara annars vegar saman við aukinn hraða skipa sem og aukningu siglinga.

Meðal þess sem er til skoðunar í vinnu MEPC er að þjóðir kortleggi hvernig siglingaleiðir skipa falli saman við útbreiðslusvæði hvala, ekki síst um svæði þar sem þekkt er að hvalir safnast saman á vissum tíma árs. Einnig er bent á mikilvægi þess að upplýsingum um dvalarsvæði hvala sé komið á framfæri við útgerðir og skipsstjórnendur, hugsanlega á sjókortum, reynt sé að fylgjast með ferðum hvala meðan á siglingu stendur og vakin er athygli á tæknilegum úrlausnum sem megi beita. Gert er ráð fyrir að drög að leiðbeiningum verði tekin fyrir á næsta fundi MEPC í júlí 2009.