Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Fresturinn til þess að forskrá efni skv. ákvæðum REACH reglugerðarinnar rann út 1. desember. Alls bárust 2,2 milljónir forskráninga sem er margfalt það sem búist var við sem rekja má til þess að fleiri fyrirtæki forskráðu efni en nauðsynlega þurftu. Forskráningar íslenskra fyrirtækja voru 137 frá 38 fyrirtækjum sem er það minnsta af ríkjunum 30 á Evrópska efnahagssvæðinu jafnvel þó tekið sé tillit til íbúafjölda.

Þau fyrirtæki sem náðu ekki að forskrá skráningarskyld efni fyrir 1. desember geta ekki lengur haft sín efni á markaði fyrr en fullnaðarskráningu þeirra er lokið og skráningargjald greitt. Forskráð efni fara í skráningarbið og fer það eftir magni þeirra hvenær skráningu skal vera lokið. Skráningaraðilar geta von bráðar tekið þátt í upplýsingaskiptum við aðra skráningaraðila í gegnum SIEF (Substance Information Exchange Forum) samráðsferlið.

Listi yfir öll forskráð efni verður senn birtur á heimasíðu Efnastofnunar Evrópu (ECHA).