Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Umhverfisstofnun hefur endurnýjað starfsleyfi Sementsverksmiðjunnar hf. á Akranesi og gildir starfsleyfið til 31. desember 2024. Þar kemur fram að Sementsverksmiðjunni er heimilt að framleiða allt að 160.000 tonn á ári af sementsgjalli og allt að 250.000 tonn á ári af sementi, auk reksturs hráefnageymslna, gjallgeymslu og sementsgeymslu og pökkunar, verkstæða og annarrar þjónustu fyrir eigin starfsemi. Ennfremur er verksmiðjunni heimilt að forhita og mala 32.000 tonn á ári af koladufti og að búa 25.000 tonn af föstum flokkuðum úrgangi til brennslu í gjallofni verksmiðjunnar, þó þannig að eins lítill hluti forvinnslu hans fari fram á Akranesi og kostur er. Þá er rekstraraðila heimil geymsla kola á Grundartanga vegna starfseminnar.

Umhverfisstofnun auglýsti tillögu að starfsleyfinu á tímabilinu 25. júlí til 19. september 2008 og bárust athugasemdir frá 15 aðilum. Nokkrar breytingar voru gerðar frá hinni auglýstu tillögu. Í starfsleyfinu er nú ákvæði um mælingar á fallryki til þess að fyrirtækið sýni fram á að það uppfylli ákvæði reglugerðar nr. 817/2002, um mörk fyrir fallryk úr andrúmslofti. Hámarksstyrkur ryks úr sementsmölun hefur einnig verið lækkaður. Þá er kveðið á um að ekki megi nota annan dýraúrgang en mjöl í gjallofn verksmiðjunnar. Jafnframt hefur verið ákveðið að fjölga mælingum á díoxín og fúrönum sem og mælingum á hávaða. Við endurskoðun starfsleyfis, sem fara skal fram á fjögurra ára fresti, er rekstaraðila gert að skila skýrslu um árangur í mengunarvörnum, niðurstöðum umhverfisvöktunar og innra eftirlits og útkomu umbótaverkefna og um umfang og reynslu af notkun eldsneytis úr flokkuðum úrgangi.