Stök frétt

Höfundur myndar: www.unsplash.com

Umhverfisstofnun vildi með þvi að hafa samband við ábúendur á Sléttu gefa leiðbeiningar varðandi umsókn um áskilin leyfi til þess að halda hreindýrakálfinum. Markmið bréfsins var ekki að hóta því að Umhverfisstofnun hyggðist aflífa dýrið, enda ekki í verkahring stofnunarinnar að taka ákvörðun þess efnis. Markmið bréfsins var að ítreka nauðsyn þess að sótt yrði um leyfi fyrir kálfinum. Jafnframt hafi ábúandanum verið gerð grein fyrir því að yrði ekki sótt um leyfi til umhverfisráðuneytis um að handsama og halda dýrið kynni niðurstaða að verða sú að dýrið yrði aflífað. Umhverfisstofnun harmar þann misskilning sem upp kom og mun í kjölfarið endurskoða orðalag sambærilegra bréfa frá stofnuninni.

Karl Karlsson, dýrlalæknir hjá Umhverfisstofnun, hafði samband í morgun við ábúendur á Sléttu og er í heimsókn á bænum til þess að ræða nánar leyfisumsóknina, kanna aðstæður sem og leita leiða til að finna farsæla lausn, enda hafi það alltaf staðið til.

Umhverfisstofnun vill benda á að ef fólk verður vart við sjúkt, lemstrað eða bjargarlaust dýr skal veita því umönnun eftir föngum og síðan tilkynna það viðeigandi yfirvöldum, lögreglu og dýralækni, sem taka í framhaldinu ákvörðun hvað gera skal við dýrið. Nánar má lesa um þetta í 9. gr. laga nr. 15/1994, um dýravernd.

Umhverfisstofnun vill ennfremur benda á að skv. 2. mgr. 12. gr. laga nr. 15/1994 um dýravernd þarf leyfi umhverfisráðherra til að handsama villt dýr fyrir dýragarða eða önnur söfn lifandi dýra. Einnig segir í 5. mgr. 7. gr. laga nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum að umhverfisráðherra geti að fenginni umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands veitt undanþágur til veiða á villtum dýrum sem njóta friðunar eða verndar ef nota á þau við rannsóknir, fyrir söfn og dýragarða eða til ræktunar og undaneldis.