Stök frétt

Umhverfisstofnun hélt nýverið borgarafund á Akureyri til kynningar á tillögum að starfsleyfi fyrir aflþynnuverksmiðju Becromal, Krossanesi. Umræða á fundinum snerist um geymslu efna á lóðinni, orkunýtingu, fráveitu í sjó og loftmengun. Fundarmenn fengu skýringar á áhrifum verksmiðjunnar á umhverfið og hvernig þau koma til.

Umræðan
Efnageymsla heyrir ekki undir Umhverfisstofnun nema hvað varðar mengun og umhverfi. Þegar mál snúast um skipulagsmál, almannavarnir og vinnuvernd eru þessi mál ekki á starfssviði Umhverfisstofnunar. Í tillögu að starfsleyfi er tiltekið hámarksmagn efna á lager en það ætti að vera hjálplegt við að meta hugsanlega hámarkshættu á bráðamengun. Þá eru ákvæði í tillögunni um áhættumat og viðbragðsáætlun. Skipulag og verkferlar fyrirtækisins munu þó ráða mestu um það hvort því mun takast að komast hjá óhöppum vegna geymslu efna.

Orkunýting er málefni sem Umhverfisstofnun lætur æ meira til sín taka. Í tillögunni er hvetjandi ákvæði um að rekstraraðili skili skýrslu um árangur við að nýta orku vel. Fram kom að það ákvæði gæti átt við um heitan sjó frá framleiðslunni. Vonast er til að þess að þetta ákvæði beini frekari athygli að þessu máli.

Fráveitumál fyrirtækisins eru þau mál sem Umhverfisstofnun hefur beint mestri athygli að varðandi rekstur aflþynnuverksmiðjunnar. Með því að beina losun í nýjar fráveituframkvæmdir Akureyrarbæjar við Sandgerðisbót verða þessu mál væntanlega í lagi til frambúðar en umrædd framkvæmd á að vera tilbúin um mitt ár 2012. Fram til þess verður fráveitan um bráðabirgðaútrás við Krossanes. Nokkrar umræður urðu einnig um mögulega mengun vegna EDTA en vonast er til þess að finna megi efni sem gera sama gagn og EDTA sem brotna þó betur niður í náttúrunni. Rekstaraðila er gert í tillögunni að semja skýrslu um möguleika til þess að bæta úr þessu. Engin bráðahætta er samt talin á mengun vegna þessa.

Ein besta aðferðin til að fylgjast með losun ammóníkas, sem er talin vera eina mögulega loftmengunin af rekstrinum, er sú að nota lyktarskynið. Fólk finnur lykt af ammóníaki löngu áður en það veldur í raun hættu. Fram kom að losun ammóníaks ætti að verða undir lyktarmörkum, þ.e. ekki ætti að vera hægt að finna lykt af ammóníaki nálægt verksmiðjunni og mælingar fari fram ef lyktar verði vart.

Kynning Umhverfisstofnunar - Glærur