Stök frétt

Umhverfisstofnun hefur gefið út starfsleyfi fyrir varaaflstöð Verne Holdings ehf. á Vallarheiði í Reykjanesbæ. Rekstraraðila er með starfsleyfinu heimilt að reka dísilrafstöðvar sem sjá gagnaveri hans fyrir allt að 55 MW varaafli þar sem raforka er framleidd með fjórgengisvélum. Heimilt er að prófa varaaflstöðina til þess að ganga úr skugga um virkni hennar og reka hana tímabundið til eigin nota ef rafmagn fer af rafmagnsdreifikerfi.

Fyrirhugað gagnaver verður byggt utan um tölvubúnað og tilheyrandi raf- og kælibúnað en varaaflstöðinni er ætlað að vera tiltæk ef rafmagn frá dreifikerfi bregst. Umhverfisstofnun komst að þeirri niðurstöðu við athugun á þessum rekstri að sjálft gagnaverið væri ekki starfsleyfisskylt samkvæmt reglugerð nr. 785/1999, um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun, en að öðru máli gegndi um varaaflstöðina. Stofnunin auglýsti tillögu að starfsleyfinu á tímabilinu 29. júní til 17. ágúst 2009 og barst ein umsögn. Þær breytingar sem gerðar voru á tillögunni fram að útgáfu hennar nú sneru aðallega að samræmingu á orðalagi við önnur sambærileg leyfi en ekki voru gerðar miklar breytingar á kröfum og fyrirkomulagi eftirlits.

Starfsleyfið öðlast þegar gildi og gildir til 30. september 2021.

Skjöl