Stök frétt

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) gaf nýverið út leiðbeiningar er varða vandamál sökum raka í húsnæði. Um er að ræða hagnýtar ábendingar handa almenningi um það hvernig skal taka á vanda sem stafar af of miklum raka í húsnæði. Umhverfisstofnun hefur þýtt leiðbeiningarnar á íslensku.

Hvers vegna þarf að huga að raka og myglu?

Í Evrópu er áætlað að of mikill raki sé sé í 10-50% (mismikið eftir löndum) af því húsnæði sem fólk býr, vinnur og leikur sér í. Of mikill raki veldur þungu lofti og saggalykt. Loft kólnar við raka veggi en það kallar á meiri upphitun með hærri hitakostnaði.Of mikill raki í húsnæði getur haft slæm áhrif á heilsu fólks. Þeir sem búa í húsnæði með raka og myglu eru í meiri hættu en aðrir að fá sjúkdómseinkenni og sýkingar í öndunarvegi, ofnæmiskvef og astma. Fólk er misviðkvæmt fyrir myglu og sumir hópar eru sérlega viðkvæmir. Sérstaklega þarf að halda raka og myglu frá börnum, eldra fólki, fólki með astma, eksem og ofnæmi eða bælt ónæmiskerfi. Rannsóknir sýna að þeir sem búa í vel einangruðum húsum og vel loftræstum leita síður til læknis og leggjast síður inn á sjúkrahús vegna kvilla í öndunarfærum en þeir sem búa í röku húsnæði.

Hér á eftir fylgja hagnýtar ábendingar handa almenningi um það hvernig taka skal á vanda sem stafar af of miklum raka sem getur komið fram sem rakt loft, rakaþétting á yfirborði flata og aukinn raki í byggingarefni. Þá eru gefnar ábendingar um það hvernig koma má í veg fyrir myglu og fjarlægja hana á öruggan hátt.

Ef ætla má að sjúkleiki kunni að stafa af raka í húsnæði skal leita til læknis.

Í hnotskurn: Komið í veg fyrir vatnsgufu og myglu í húsnæði með því að:

  • Fjarlægja myglu þegar vart verður við hana
  • Opna glugga í stutta stund a.m.k. 2-3 sinnum á dag
  • Slökkva ekki á vélknúinni loftræstingu (sé hún til staðar)
  • Nota viftur í baðherbergi og eldhúsi
  • Láta ekki herbergi og veggi kólna
  • Gera alltaf við leka og aðra byggingargalla

Hagnýtar ábendingar um hvernig losna má við raka og myglu

Lykilatriði: Helsta leiðin til að takmarka myglu og annan örveruvöxt er að koma í veg fyrir raka eða draga úr honum.

Ekkert vatn – engin mygla!

Grípa þarf til þrenns konar aðgerða í eftirfarandi röð:

1. Finna og staðsetja upptök rakans (lekans).

2. Fjarlægja mygluna.

3.     Gera ráðstafanir til þess að draga úr raka og rakaþéttingu.

Hér á eftir eru fyrst kynntar aðferðir til að finna og staðsetja myglu, en síðan er leiðbeint um hvernig íbúar geta sjálfir gert við mygluskemmdir. Í síðasta og mikilvægasta kaflanum er fjallað um viðeigandi aðgerðir til að koma í veg fyrir of mikinn raka eða draga úr honum. Þar eru taldar upp orsakir raka, rakaþétting útskýrð og lýst hvernig koma má í veg fyrir hana. Loks er drepið á hvernig glíma skal við þrálátan raka.

1.    Að finna og staðsetja upptök raka

Lykilatriði:   Mygla vex aðeins þar sem raki er nægur. Þegar mygla kemur í ljós þarf fyrst að reyna að finna hvaðan rakinn kemur.

Hvað veldur myglu?

Aðalorsakir of mikils raka eru:

 

  • Lekar vatnslagnir, niðurföll eða flóð upp úr niðurföllum.
  • Lek þök, stíflaðar rennur, leki með gluggum og brotnar lagnir.
  • Loftræsikerfi vantar eða er bilað.

Merki um raka af þessum sökum eru oft sýnileg og eru viðgerðir nauðsynlegar til þess að koma í veg fyrir rakann. Í nýbyggðu húsi getur raki stafað af því að steypan hefur ekki enn náð að þorna til fulls. Ef raki í húsnæði stafar af ofangreindum orsökum, getur þurft að hita upp húsnæðið og loftræsta vikum saman til að eyða rakanum. Ef raka virðist ekki vera hægt að rekja til byggingargalla, leka, uppgufunar eða steypu sem er enn að þorna, stafar hann líklega af rakaþéttingu (sjá 3. kafla).

2.    Að fjarlægja myglu

Lykilatriði:   Þegar tekist hefur að finna upptök raka og draga úr honum eða eyða, er næsta skref að ákveða hvort hægt sé að fjarlægja mygluna án aðstoðar fagmanna.

Þegar myglu má rekja til byggingargalla (leka o.s.frv.) og/eða mygla er í byggingarefni, er ráðlegt að leita til fagmanna. Einnig getur verið gagnlegt að leita ráða um heppilegt val á verktaka.

Ef mygluvöxt má rekja til rakaþéttingar, mygluflöturinn er minni en 1m2 og stafar ekki frá frárennslislögnum eða niðurföllum geta íbúar líklega sjálfir leyst vandann með því að fara eftir þessum leiðbeiningum eða leiðbeiningum annarra sem þekkingu hafa á þessum málum.

Hvort sem íbúar gera þetta sjálfir eða fá til þess fagmenn, þarf að verja sig fyrir myglugróum með því að nota grímu fyrir öndunarfæri, gleraugu og hanska.

Að öllu jöfnu er ekki er mælt með að nota sótthreinsiefni eða eiturefni til þess að hreinsa myglu því að þá er íbúunum hætt við eitrun. Sótthreinsiefni ráðast heldur ekki að rótum vandans og geta verið heilsuspillandi.

 Að fjarlægja myglumengaða hluti

  • Notið stóran plastpoka undir mygluð föt, gluggatjöld, gólfmottur og teppi sem þarf að þvo/hreinsa. Metið hvort henda skuli dýnum og mjúkum leikföngum sem lykta af myglu og virðast rök.
  • Við hreinsunina berast myglugró út í loftið. Hafið glugga opna en lokið dyrum þétt til að koma í veg fyrir að gró berist til annarra herbergja í húsnæðinu. Látið glugga standa opna meðan á hreinsun stendur og eftir hana.
  • Hafið vatn í fötu og blandið vatnið með mildu sápuefni, t.d. uppþvottalegi eða þvottaefni fyrir viðkvæman þvott.  Notið þvottaklúta sem má henda eftir notkun.
  • Strjúkið myglu varlega af veggjum, lofti eða öðrum flötum með klút bleyttum í sápuvatninu. Þurrkið síðan flötinn með þurrum klút. Setjið klútana síðan í plastpoka áður en þeim er hent.
  • Eftir að myglan hefur verið fjarlægð þarf að hreinsa yfirborð allra flata í herberginu vandlega, annaðhvort með þvotti eða með því að ryksuga og þá helst með HEPA síu (mjög þétt sía sem er notuð til að sía útblástursloft frá ryksugu).

Þegar myglan hefur verið fjarlægð er næsta verkefni að sjá til þess að hún komi ekki aftur. Í næsta kafla eru gefin ráð til þess að koma í veg fyrir raka og rakaþéttingu.

3.    Að koma í veg fyrir of mikinn raka og rakaþéttingu

Lykilatriði:   Ef vandinn er hvorki af völdum leka né ónógrar eða engrar loftræstingar stafar hann líklega af rakaþéttingu.

Hvað er rakaþétting?

Þrír þættir leiða til þess að gufa þéttist í raka á yfirborði flata í byggingum: Rakt inniloft, kaldir yfirborðsfletir og léleg loftræsting.

1. Rakt inniloft: Rakaþétting verður þegar gufa þéttist í raka í gufumettuðu innilofti. Heitt loft getur verið rakara (geymt meiri gufu) en kalt loft. Til dæmis myndast gufa þegar heitt vatn rennur í sturtu eða í baðkar. Þegar loftið í baðherbergi mettast vatnsgufu, taka litlir dropar að myndast, fyrst á köldum flötum eins og speglum, gluggasyllum og rúðum.

2. Kaldir yfirborðsfletir: Þétting getur orðið meiri þegar loft er kalt. Rakt loft kemst í snertingu við kalda fleti innan dyra og gufan í loftinu þéttist á flötunum. Vatn tekur að renna niður eftir gluggarúðum og veggjum og myndar fúa í gluggaviði en blöðrur á veggfóðri og málningu á veggjum. Ummerki raka og sagga sjást oft á norðurvegg, einkum í hornum, því að norðurveggur húss er oft kaldari en hinir útveggirnir.

3. Léleg loftræsting: Raka í innilofti má minnka með loftræstingu. Ef loftskipti eru ónóg eykst vatnsgufa í innilofti og rakaþétting eykst. Auk þess haldast veggir kaldir ef hreyfing á loftinu er ekki nóg til þess að hlýtt loft nái til þeirra. Mygla getur þess vegna myndast þar sem lítil hreyfing er á lofti, t.d. í gluggalausum kjöllurum eða bak við skápa, Á stöðum þar sem saman fer léleg loftræsting og kaldir fletir (t.d útveggir) er mikil hætta á mygluvexti.

Þegar búið er að fjarlægja myglu sem stafaði af rakaþéttingu, þarf að átta sig á hvað veldur þéttingunni og koma í veg fyrir að hún eigi sér stað.

Að koma í veg fyrir rakaþéttingu

a.  Forðist að mynda raka að óþörfu

  • Sjóðið mat í lokuðum potti svo að vatnsgufan haldist sem mest í pottinum.
  • Látið vatn ekki sjóða að óþörfu eftir að suða er komin upp.
  • Hengið þvott til þerris utanhúss ef kostur er. Þurrkið þvott annars í þvottaherbergi eða baðherbergi og hafið dyr lokaðar, glugga opinn eða loftræstingu í gangi.
  • Varist að nota olíu- eða gaseldavélar ef yfir þeim er enginn gufugleypir.Við bruna olíu og gass myndast töluvert vatn.

 

 b.  Fjarlægið raka með loftræstingu

  • Loftræstið öll herbergi reglulega til þess að veita röku lofti burt. Hafið í huga að þéttar byggingar þurfa meiri loftræstingu.
  • Vélknúin loftræsting ætti stöðugt að vera í gangi.
  • Vatnsgufa myndast við matseld, steypibað og bað í kerlaug. Opnið glugga eða setjið loftræstingu í gang og lokið dyrum svo að vatnsgufa berist ekki inn í önnur herbergi.
  • Að lokinni matseld eða baði skal hafa allar dyr að herbergjum opnar svo að loft nái að streyma milli þeirra.
  • Forðist rakaþéttingu í svefnherbergjum með því að að hafa glugga opinn í a.m.k. 15 mínútur á hverjum morgni. Við öndun berst töluverður raki í inniloft.
  • Hafið dálítið bil milli veggjar og húsgagna svo að loft nái að streyma bak við húsgögnin. Loftræstið skápa með því að hafa skáphurðir opnar öðru hverju.
  • Loftræstið ekki kaldan kjallara þegar lofthiti er hærri úti en inni, því að þá þéttist vatnsgufan í heita loftinu á kaldari flötum innan húss. Á heitu sumri er rétt að loftræsta kjallara kvölds eða morgna þegar útihiti er lægri en innihiti.

c.  Einangrið húsið eða hækkið hita í húsnæðinu

  • Það er breytilegt hvað fólki þykir þægilegur hiti. Á heimilum er kjörhiti á bilinu 19-22°C í stofum, eldhúsi og baði, en 16-20°C í svefnherbergjum.
  • Þegar enginn dvelst á heimilinu ætti stofuhiti ekki að vera undir 15°C til þess að forðast rakaþéttingu.
  • Hitið ekki köld svefnherbergi á kvöldin með því að opna dyr að upphituðum herbergjum.
  • Góð einangrun dregur úr hættu á mygluvexti því að í vel einangruðu húsi eru veggir ekki kaldir. Munið þó að þéttir gluggar og byggingar kalla á góða loftræstingu.

 Ef vandinn er þrálátur

Í sumum húsum er raki þrálátur þó að gerðar hafa verið ráðstafanir til að draga úr rakaþéttingu. Þá kemur til álita að:

  • Einangra kalda fleti, t.d kaldavatnslagnir
  • Setja loftristar á glugga
  • Nota rafmagnsviftur eða vélknúna loftræstingu
  • Fá fagmann til þess að leggja mat á einangrun hússins
  • Að einangra háaloft og holrúm í veggjum, og setja þéttilista með dyrum og gluggum.