Stök frétt

Ársfundur Umhverfisstofnunar fór fram föstudaginn 9. apríl fyrir fullum sal en um 180 manns mættu á fundinn og um 30 til viðbótar horfðu á hann í beinni útsendingu á vefnum. Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra ávarpaði fundinn. Í ávarpi sínu sagði Svandís að hún upplifði sterkt að góður starfsandi og kraftur væri í starfi Umhverfisstofnunar. Sérstaklega nefndi hún hinn góða árangur sem náðst hefur á undanförnum misserum í starfi Svansmerkisins og að hún teldi að á næstu árum yrði aukin áhersla á loftslagsmál. Fundarstjóri var Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður umhverfisnefndar Alþingis.

Fundurinn var sendur út í beinni útsendingu og upptaka af fundinum nú aðgengileg á vef stofnunarinnar. Var það í fyrsta skipti sem Umhverfisstofnun sendi út ársfund sinn í beinni útsendingu. Útsendingin var tilraun með nýja leið sem kostar lítið sem ekkert og stefnan er að nýtt verði í meira mæli á komandi misserum. Útsendindingin heppnaðist vel og horfðu um 30 manns á hana í gegnum vef stofnunarinnar.

Kristín Linda Árnadóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar ræddi um umhverfisgæði og náttúruauðlindir. Hún lagði áherslu á mikilvægi þess að Ísland færði sig í átt að grænu hagkerfi á komandi árum. Margt þyrfti að koma til í því sambandi, t.d. umhverfismerkingar, styrkt náttúruverndarlöggjöf, grænir skattar, nytjagreiðslreglan og svo mætti lengi telja. Einnig sagði Kristín Linda frá því að Umhverfisstofnun stefndi að því að auglýsa störf óháð staðsetningu – þannig að nýráðnir starfsmenn geti valið sér á hverri af sjö starfsstöðvum stofnunarinnar þeir kjósa að starfa.

Nils Hallberg frá sænsku Umhverfisstofnuninni flutti erindi um fugla- og búsvæðatilskipun ESB og hvernig gekk að innleiða þær í Svíþjóð. Í Svíþjóð eru 29 þjóðgarðar og um 3200 verndarsvæði. Auk þess njóta svæði verndar í samræmi við Náttúra 2000 netið sem er samevrópskt net verndarsvæði fugla og búsvæða annarra dýra. Í máli Nils kom fram að vinna við Náttúru 2000 hefst á sveitastjórnarstiginu. Svæði á Náttúra 2000 listanum þurfa ekki að vera friðlýst en gerð er krafa um leyfisveitingar og að ríkið getur orðið skaðabótaskylt.

Einnig voru flutt 15 stutt erindi um nokkur af fjölmörgum verkefnum Umhverfisstofnunar á síðasta ári. Erindin gefa góða yfirsýn í mörgum mikilvægum verkefnum umhverfismála á Íslandi. Erindin eru öll aðgengileg í upptöku frá fundinum.