Stök frétt

Höfundur myndar: Þorsteinn Jóhannsson

Vegna ríkjandi austanáttar í dag og næstu daga liggur gjóskugeiri frá Eyjafjallajökli nú yfir Suðurlandsundirlendið. Vegna þessa má gera ráð fyrir mistri víða um Suðurland. Á höfuðborgarsvæðinu er mistur en styrkur svifryks og brennisteinsdíoxíðs er ekki hærri en oft mælist frá umferð á svæðinu. Mengunin er hins vegar útbreiddari en venjulega er frá umferðarmengun og því er mistrið meira áberandi. Styrkur svifryks mælist nú yfir umhverfismörkum á Hvolsvelli. Umhverfisstofnun bendir á að þeir sem eru með viðkvæm öndunarfæri geta fundið fyrir óþægindum og jafnframt er þeim sem eru með öndunarfæra- og hjartasjúkdóma bent á að vera ekki úti fyrir að óþörfu. Óþarft er að nota grímur nema í sýnilegu öskuufalli.

Almenningur getur fylgst með mælingum á svifryki:

Reykjavík: loft.ust.is

Vík í Mýrdal: kort.vista.is

Kópavogur og Hafnarfjörður: heilbrigdiseftirlit.is

Loftgæðamælingar í Vík í Mýrdal

Umhverfisstofnun hefur flutt svifryksmæli frá Kirkjubæjarklaustri til Víkur í Mýrdal, nær eldstöðinni þar sem áhrif eru sennilega meiri. Mælingar hófust 22. apríl (um kl. 13). Mælingar fyrstu 2 dagana sýna allmikinn breytileika þar sem grunnstyrkur er nálægt umhverfismörkum en rýkur upp skamma stund. Nú, laugardaginn 24. apríl hefur greinst hár styrkur þrátt fyrir jafnfallinn snjó og lítinn vind úr NA. Hér er um að ræða fjúk ofan frá fjöllum þar sem vindur er meiri. Gera má ráð fyrir svipuðu ástandi áfram meðan vindur nær að feykja upp gjósku. Fylgjast má með mælingum á vefslóðinni kort.vista.is

Loftgæðamælingar á Hvolsvelli

Reykjavíkurborg hefur lagt til færanlega mælistöð og var hún sett upp á Hvolsvelli í gær. Stöðin annar lítilli netumferð og er því ekki aðgengileg fyrir almenning en Umhverfisstofnun og Heilbrigðiseftirlit Suðurlands munu fylgjast með mælingum og upplýsa þar um eftir aðstæðum. Unnið er að því að bæta aðgengi. Í morgun mældist styrkur svifryks yfir mörkum og geta þeir sem eru með viðkvæm öndunarfæri fundið fyrir óþægindum.

Frekari mælingar á loftgæðum

Umhverfisstofnun bendir á að fylgst er með loftgæðum á nokkrum stöðum á Suður- og Suðvesturlandi.

Í Hveragerði og á Norðlingaholti í Reykjavík er greindur styrkur SO2 og H2S - aðgengilegt á heilbrigdiseftirlitid.is

Í Kópavogi er loftgæðastöð sem mælir styrk svifryks, SO2, NOx - aðgengilegt á heilbrigdiseftirlit.is

Á Hvaleyrarholti í Hafnarfirði er fylgst með styrk H2S, SO2, NOx og svifryks - aðgengilegt á heilbrigdiseftirlit.is

Við Grensásveg í Reykjavík er vaktaður styrkur fjölmargra efna, þ.m.t. SO2, H2S og svifryks og í Fjölskyldu- og Húsdýragarðinum er mælt svifryk, NOx og óson - aðgengilegt á loft.ust.is

Umhverfisstofnun vinnur enn fremur að því að afla fleiri mælistöðva til uppsetningar undir Eyjafjöllum, þar sem mesta gjóskan hefur fallið. Nánar verður greint frá þeim og mæliniðurstöðum eftir því sem verkinu miðar.