Stök frétt

Höfundur myndar: Þorsteinn Jóhannsson

Frá því í vor hefur Umhverfisstofnun rekið loftgæðamælistöð í Vík í Mýrdal til að fylgjast með öskufalli og síðan öskufoki vegna eldgossins í Eyjafjallajökli. Um helgina var stöðinni stolið og fannst hún út á golfvelli bæjarins í u.þ.b. kílómeters fjarlægð þar sem hún stóð. Skemmdir urðu á stöðinni við þetta og er því nauðsynlegt að flytja hana til Reykjavíkur til viðgerðar. Ljóst er að þeir sem þarna voru að verki hafa þurft að leggja all nokkuð á sig, þar sem stöðin var fest við staur og í 4 m hæð, auk þess sem hún vegur 70 kg.

Loftgæðamælistöðin sem hefur mælt svifryk við Raufarfell undir Eyjafjöllum, er nú í Reykjavík vegna viðhalds og kvörðunar og eru þar af leiðandi engar svifryksmælingar á Suðurlandi núna. Umhverfisstonfun þykir miður að mælitæki sem eru m.a. til þjónustu og upplýsinga fyrir almenning skuli vera eyðilögð með þessum hætti.