Umhverfistofnun - Logo

Stök frétt

Umhverfisstofnun hefur gefið út starfsleyfi fyrir Nesskel ehf. að rækta krækling og til lirfusöfnunar á fjórum stöðum í Hvammsfirði og þremur stöðum í Króksfirði og koma þau nánar fram í meðfylgjandi kortum í viðaukum starfsleyfisins ásamt hnitum svæðanna. Umhverfisstofnun auglýsti tillögu að starfsleyfi fyrir Nesskel ehf. á tímabilinu 29. júní til 24. ágúst 2010 og var hún jafnframt send til kynningar hjá Siglingastofnun Íslands, Landhelgisgæslu Íslands, Hafrannsóknastofnuninni, Fiskistofu, Breiðafjarðarnefnd, Dalabyggð, Reykhólahreppi, Heilbrigðiseftirliti Vestfjarðasvæðis og Heilbrigðiseftirliti Vesturlands og Nesskel ehf. Þá lá tillagan frammi á ofangreindum tíma á skrifstofu Reykhólahrepps ásamt umsóknargögnum.

Ein athugasemd barst og kom hún frá Hafrannsóknastofnuninni sem spurði um dýpi og hvernig straummælingum yrði háttað og var ákveðið að bregðast þannig við að í grein 3.2 sem fjallar um mat á áhrifum á sjávarbotni er kveðið skýrar á um að fjalla skuli um það hvort dýpi og straumur dugi til að dreifa úrgangi.

Þá var einnig ákveðið að breyta grein 2.7 þannig að ákvæði laga um vernd fugla kæmu skýrar fram.

Starfsleyfi þetta er veitt í samræmi við reglugerð nr. 785/1999, um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun, sbr. lög nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir. Það öðlast þegar gildi og gildir til 30. september 2022.