Stök frétt

Djúpalónssandur

Djúpalónssandur er án efa vinsælasti viðkomustaður innan þjóðgarðs. Við bílastæðið er salernisaðstaða og var aðkoma þar ekki nógu góð og er þar t.d. ekki aðgengi fyrir fólk með fötlun. Ákveðið var að leggja pallastétt frá bílastæði að salernishúsum og að upplýsingaskiltum um svæðið sem eru þar rétt hjá. Næsta skref er að leggja stíginn áfram þannig að allir eigi þess kost að geta virt Djúpalónssand og umhverfi hans fyrir sér.

Írskrabrunnur endurhlaðinn

Írskrabrunnur er fornt vatnsból Gufsara, fólksins sem bjó á Gufuskálum. Brunnurinn er hlaðinn og liggja þrep ofan í hann. Hann stendur rétt við ströndina, litlu sunnan við Gufuskála. Brunnurinn var týndur um tíma eða frá því búskap var hætt á Gufuskálum á fimmta áratug 20. aldar og þar til hann fannst á ný árið 1989. Veturinn 2008-2009 hrundi hluti af vegg Írskrabrunns í ofsaveðri. Hleðslunum hafði ekki verið haldið við frá því að brunnurinn fannst á ný og jarðvegurinn var farinn að síga. Óveðrið gerði síðan útslagið. Fornt bein úr sléttbak var yfir brunninum og brotnaði það. Brunnurinn er friðlýstur samkvæmt lögum eins og aðrar minjar á Gufuskálum. Sumarið 2010 voru hleðslumennirnir Helgi Sigurðsson og Halldór Einarsson hjá Fornverki ehf fengnir til að endurhlaða brunninn og nutu þeir aðstoðar landvarða og annarra starfsmanna þjóðgarðsins. Tókst verkið vel. Hvalbein var sett í stað þess forna en úr langreyð að þessu sinni, tröppur lagaðar, nýtt grindverk smíðað í kringum brunninn og fræðsluskilti sett upp. Um leið og Írskrabrunnur var hlaðinn var tækifærið notað og varðan Háihjalli var lagfærð en hún er utarlega á Öndverðarnesi og var hluti hennar hruninn. Allt var þetta unnið í samráði og undir eftirliti minjavarðar Vesturlands.

Göngustígur á Arnarstapa og pallur á móts við Gatklett

Ætlunin er að leggja hjólastólafæran göngustíg frá styttu af Bárði Snæfellsás á Arnarstapa meðfram ströndinni og að höfninni. Verkefnið er samstarfsverkefni þjóðgarðsins og Snæfellsbæjar. Snæfellsbær fékk styrki frá Ferðamálastofu á árunum 2008 og 2009, alls 3 milljónir króna. Ákveðið var að leggja eco-grids grindur í göngustíginn og er um tilraunaverkefni að ræða en slíkar grindur hafa ekki verið notaðar áður í göngustíga hér á landi eftir því sem best er vitað. Byrjað var á því að grafa fyrir stígnum og setja möl. Grindurnar voru síðan lagðar í farið og jarðvegurinn sem grafinn var upp var settur ofan í þær. Einæru rýgresi og áburði var dreift yfir. Gróðurinn á síðan að vaxa upp í gegnum grindurnar. Fyrsti hluti stígsins var lagður sumarið 2010, um 200 m leið niður að ströndinni. Þar á að byggja lítinn útsýnispall og síðan á að halda áfram meðfram ströndinni. Ekki hefur verið ákveðið hvaða efni verður notað í framhald stígsins. Næsti áfangi hans mun liggja að Gatkletti og verður þá útsýnið að honum og ströndinni aðgengilegt fyrir alla. Á móts við Gatklett er búið að smíða útsýnispall og er tilgangur hans að koma í veg fyrir frekari jarðvegseyðingu á staðnum og hækka þolmörk staðarins auk þess að auka öryggi ferðamanna. Verktaki sá um smíði pallsins og jarðvinnu undir grindurnar en landverðir og erlendir sjálfboðaliðar sáu um að leggja grindurnar. Nokkrum vikum eftir að grindurnar voru lagðar var komin græn slikja yfir stíginn.

Gamalt salthús á Malarrifi lagfært

Á Malarrifi er unnið að endurbótum gamalla húsa. Eitt þeirra er gamalt salthús sem stendur á kambinum ofan við gömlu lendinguna. Það var notað þegar útræði var frá staðnum. Á Malarrifi eru einnig gömul gripahús; fjárhús, fjós og haughús og eru þau ásamt salthúsinu í umsjón þjóðgarðsins. Ýmsar hugmyndir hafa komið fram um hvernig hægt sé að nýta þau, m.a. til fræðslu og leiks fyrir skólafólk auk þess að vera aðstaða fyrir ferðamenn. Það sem getur hins vegar hamlað nýtingu húsanna er sú staðreynd að á Malarrifi er ekkert ferskt vatn að fá. Menningarsjóður Sparisjóðs Ólafsvíkur styrkti endurbæturnar á salthúsinu.

Úr ársskýrslu Umhverfisstofnunar 2010