Stök frétt

Ársfundur Umhverfisstofnunar var haldinn þann 25. mars 2011 en á fundinum voru flutt fjölmörg stutt áhugaverð erindi um starfsemi stofnunarinnar, nýr vefur var opnaður, ráðherra flutti ávarp og einnig fluttu erindi fulltrúar almennings og atvinnulífs. Hægt er að horfa á upptöku frá fundinum hér á vefnum

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra ræddi í erindi sínu um mikilvægi upplýsingamiðlunar til almennings og um Svansmerkið, en það hefur vaxið mikið á undanförnum árum. Kristín Linda Árnadóttir, forstjóri, ræddi um þær breytingar sem gerðar hafa verið á stofnuninni frá árinu 2008 og þá stefnu sem Umhverfisstofnun hefur markað sér. Einnig ræddi hún mikilvægi þess að eftirlitsstofnunum á sviði umhverfismála verði markaður sambærilegur rekstrargrundvöllur og eftirlitsstofnunum á öðrum sviðum. Í tilefni þess að stofnunin opnaði nýjan vef þar sem upplýsingum er skipt upp annars vegar til almennings og hins vegar til atvinnulífs og opinberra aðila fékk stofnunin Björgólf Thorsteinsson frá Landvernd til að tala fyrir almenning og Rannveigu Rist forstjóra Alcan til þess að tala fyrir atvinnulífið um miðlun umhverfisupplýsinga. Að venju voru einnig flutt fjölmörg stutt erindi um starfsemi stofnunarinnar árið 2010 þar sem hæst bar eldgosið í Eyjafjallajökli og mælingar stofnunarinnar á svifryki, þar sem komið var upp mælineti á mettíma.