Umhverfistofnun - Logo

Stök frétt

Umhverfisstofnun hefur tekið saman skýrslu um losun gróðurhúsalofttegunda frá árinu 1990 til 2009 og sent hana til loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna. Árið 2009 var losunin 4,6 milljónir tonna CO2-ígilda og dróst saman um 5% frá árinu áður. Þessa minnkun má einkum rekja til minni myndunar PFC í álverum (vegna betri framleiðslustýringar), minni losunar vegna byggingastarfsemi (kreppuáhrif) og vegna minni sementsframleiðslu (kreppuáhrif). Losun vegna fiskveiða jókst hins vegar frá árinu 2008. Ísland er skuldbundið til þess að halda sig innan tiltekinna marka varðandi losun gróðurhúsalofttegunda. Samkvæmt spám Umhverfisstofnunar mun Ísland standa við sínar skuldbindingar gagnvart Kyoto-bókuninni.

Losunarheimildir Íslands

Á fyrsta skuldbindingartímabili Kyoto-bókunarinnar frá 2008 til 2012 nema losunarheimildir Íslands rúmlega 18,5 milljónum tonna CO2-ígilda. Þetta jafngildir því að árleg losun skuli að meðaltali nema um 3,7 milljónum tonna. Samkvæmt íslenska ákvæðinu (14/CP.7 við Kyoto-bókunina) er Íslandi þó heimilt að halda losun frá nýrri stóriðju eða stækkun stóriðjuvera utan við losunarskuldbindingar sínar eftir að losunarheimildir hafa verið fullnýttar, samkvæmt tilteknum reglum. Heildarmagnið sem halda má utan við losunarheimildirnar nemur samtals 8 milljónum tonna á fyrsta skuldbindingartímabilinu, eða að meðaltali 1,6 milljónum tonna á ári. Sérstakar reglur gilda um hvaða losun falli undir íslenska ákvæðið. Einnig er mögulegt að kaupa heimildir á kolefnismörkuðum og að fá úthlutað sérstökum heimildum vegna þátttöku í verkefnum á sviði loftslagsvænnar þróunaraðstoðar og/eða vegna bindingar kolefnis með landgræðslu og skógrækt.

Losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi

Árið 2009 nam heildarlosun gróðurhúsalofttegunda frá Íslandi  4,6 milljónum tonna CO2-ígilda (CO2-ígildi ýmissa efna eru reiknuð út frá því hve mikil gróðurhúsaáhrif þau hafa miðað við CO2. Þannig  er hlýnunarmáttur PFC (m.v. 100 ár) 6500-9200 miðað við CO2). Þar af falla 1,2 milljónir tonna undir íslenska ákvæðið. Losun utan við íslenska ákvæðisið, var því samtals rúmlega 3,4 milljónir tonna. Fyrirfram var búist við því að losun árið 2009 yrði minni en árið 2008 vegna kreppunnar og eins vegna þess að gert var ráð fyrir að draga myndi úr losun PFC frá Fjarðaáli sem komst í fulla framleiðslu árið 2008 (losun frá Fjarðaáli var því há árið 2008).

Tveir flokkar losunar eru langstærstir hérlendis og nam losun frá þeim árið 2009 samtals 64% af heildartölunni.  Losun vegna iðnaðar og efnanotkunar er samtals 44% og vegna samgangna 20% eins og sjá má á kökuritinu.

Í loftslagssamningnum eru allar tölur miðaðar við árið 1990 sem grunnár. Losun það ár var 3,4 milljónir tonna CO2-ígilda og hefur hún því aukist um 35% á tímabilinu 1990 til 2009. Mest hefur aukningin verið frá áliðnaði (142%) og vegasamgöngum (69%). Talsverð aukning hefur einnig verið vegna meðhöndlunar úrgangs sem og vegna rafmagns- og hitaframleiðslu.  Losunin hefur hins vegar dregist saman um 17% í sjávarútvegi og um 6% í landbúnaði eins og sjá má á súluritinu.


Tengd skjöl