Stök frétt

Nýlega var haldið námskeið fyrir heilbrigðisfulltrúa sveitarfélaga, til þjálfunar við skoðun og eftirlit með tækjum og virkni þeirra í loftræsti- og hitakerfum og heitu neysluvatni.

Samstarf  Umhverfisstofnunar, Heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga og Lagnafélags Íslands hófst haustið 2005 þegar haldið var námskeið um eftirlit með loftræstikerfum fyrir heilbrigðisfulltrúa. Námskeiðið var haldið í Lagnakerfamiðstöð Íslands og var vel sótt og þótti takast mjög vel.

Í framhaldi af námskeiðinu leituðu Heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga og Umhverfisstofnun eftir frekara samstarfi við Lagnafélagið um úttektir á virkni hita- og loftræstikerfa á landsvísu. Þessari málaleitan var vel tekið og hófst undirbúningur að verkefninu  haustið 2006, en útektarferðir um landið fóru fram árið 2008 og 2009. Skoðuð voru 35 hús á landsvísu. Skýrsla um verkefnið Lagnafréttir 37 kom út í mars 2010 og sýndu niðurstöður hennar að mörgu er ábótavant við frágang, úttekt, rekstur og eftirlit  með hita- og loftræstikerfum hér á landi. Skýrslan var kynnt á fjölmennri ráðstefnu í apríl sama ár.

Umhverfisstofnun vildi fylgja eftirlitsverkefninu og skýrslunni eftir með því að bjóða heilbrigðisfulltrúum á ný upp á námskeið um eftirlit með hita- og loftræstikerfum. Leitað var á ný til Lagnafélagsins og var námskeið haldið hjá Umhverfisstofnun þann 9. maí s.l. . Leiðbeinandi á námskeiðinu var Kristján Ottósson framkvæmdastjóri Lagnafélagsins. Þátttakendur voru ánægðir með bæði framsetningu og efnistök. Einnig fengu þátttakendur afhent góð námskeiðsgögn, sem munu nýtast þeim vel við eftirlit með hita- og loftræstikerfum.