Stök frétt

Hafin er sýnataka af jarðvegi og sjávarseti á völdum svæðum hér á landi á vegum Umhverfisstofnunar til mælinga á díoxínum og heildarmagni lífræns kolefnis (TOC). Díoxín er samheiti yfir klóríðrík díoxín og fúrön.

Umrædd svæði fyrir jarðvegssýnatöku eru í grennd við starfandi og aflagðar sorpbrennslur, sorpflokkunarstöð, stærstu iðjuver/verksmiðjur, í nokkrum brennustæðum fyrir árlegar opnar brennur auk þess sem sýni verða tekin á 10 viðmiðunarstöðum þar sem ekki er að vænta díoxín uppspretta af manna völdum. Sýni af sjávarseti verða tekin úr Skutulsfirði og á viðmiðunarstað. Við sýnatökuna er gengið út frá því að taka jarðvegssýnin á lítt röskuðu landi undan gróðurþekju þar sem tún/gras er ekki slegið og jörð ekki of blaut. Undantekning er þó Engidalur, inn af Skutulsfirði, þar sem einnig verður tekið sýni til samanburðar undan túni sem slegið er reglulega.

Hvað áramótabrennur varðar verða í Reykjavík tekin sýni af jarðvegi í brennustæði eldri brennu, við Ægisíðu, þar sem byrjað var að hafa árámótabrennur árið 1988 áður en reglur um brennur voru hertar, og í brennustæði nýrrar brennu, við Rauðvatn, þar sem byrjað var að hafa áramótabrennu árið 2007. Einnig verða tekin jarðvegssýni úr stæði áramótabrennu í Skutulsfirði og við Fjósaklett í Vestamannaeyjum til samanburðar.

Verkís í samvinnu við rannsóknarþjónusta Sýni hefur tekið að sér sýnatökuna og munu sjá til þess að mælingar á díoxínum og TOC fari fram í sýnunum. Mælingarnar munu fara fram hjá rannsóknarstofunni Eurofins. Sýnatakan mun klárast á næstu tveimur vikum og er niðurstaðna mælinga á díoxínum og TOC að vænta eigi síðar en 20. júní næstkomandi.

Tengd skjöl