Stök frétt

Laus eru til umsóknar tvö störf sérfræðinga á sviði loftslagsbreytinga og viðskiptakerfis með losunarheimildir gróðurhúsalofttegunda. Um er að ræða ný störf.

Megin ábyrgðarsvið sérfræðinganna lúta að umsjón, eftirliti og utanumhaldi með losun gróðurhúsalofttegunda í tengslum við viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir (EU-ETS) og með útgáfu, handhöfn, framsal og ógildingu losunarheimilda.

Hæfniskröfur

Gerð er krafa um meistarapróf í umhverfisfræðum, raungreinum eða sambærilega menntun auk starfsreynslu. Jafnframt koma til greina aðilar með sambærilegar gráður í viðskiptafræði, hagfræði eða líkum greinum. Þekking á umhverfismálum er forsenda ráðningar. Einnig er gerð krafa um góða þekkingu á gagnagrunnum og/eða töflureiknum þar sem vinnan snýst um stór og mikil gagna- og talnasöfn. Þekking á ETS-kerfinu er æskileg.

Auk framangreindra krafna fyrir störfin, verða eftirfarandi þættir um þekkingu, reynslu og hæfni hafðar til viðmiðunar við val á starfsmönnum:

  • Skipulagshæfileikar og markviss vinnubrögð
  • Þekking á opinberri stjórnsýslu
  • Kunnátta í íslensku og ensku og þekking á Norðurlandamáli
  • Hæfni í framsetningu upplýsinga á skrifuðu og töluðu máli
  • Samstarfshæfni og lipurð í mannlegum samskiptum

Næsti yfirmaður sérfræðingsins er Kristján Geirsson deildarstjóri, sem veitir nánari upplýsingar um störfin ásamt Sigrúnu Valgarðsdóttur starfsmannastjóra í síma 591 2000.

Laun eru samkvæmt kjarasamningi fjármálaráðherra og hlutaðeigandi stéttarfélags.

Bæði konur og karlar eru hvött til að sækja um starfið.

Æskilegt er að sérfræðingarnir geti hafið störf í byrjun september. Föst starfsaðstaða þeirra getur verið í Reykjavík, Hellissandi, Ísafirði, Akureyri, Mývatni, Egilsstöðum eða Vestmannaeyjum, allt eftir búsetu umsækjanda. Gert er ráð fyrir að gagnkvæmur reynslutími sé sex mánuðir við ráðningu.

Umsóknir skulu sendar til Umhverfisstofnunar, Suðurlandsbraut 24, 108 Reykjavík eða á netfangið ust@ust.is eigi síðar en 12. júní 2011.