Stök frétt

Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna (UNEP) hefur útnefnt þann 5. júní dag umhverfisins (World Environmental Day – WED) og er haldið upp á þann dag víða um heim af því tilefni. Dagurinn er haldinn hátíðlegur á marga mismunandi vegu en með sama markmiði, að fá heimsbyggðina til að taka þátt í jákvæðum aðgerðum í þágu umhverfisins.

Árið 1972 var fyrst haldið upp á dag umhverfisins en viðburðurinn hefur vaxið og er nú orðinn eitt stærsta tæki UNEP til að vekja athygli og auka skilning almennings á umhverfismálum og hvetja stjórnmálamenn til aðgerða. UNEP notar daginn til að vekja athygli einstaklinga á því að hver og einn ber ábyrgð í þessum efnum og að einstaklingar geri sér grein fyrir eigin valdi til breytinga í þágu sjálfbærrar þróunar.

Árið 2011 er dagur umhverfisins tileinkaður skógum. Skógar þekja um einn þriðja lands á jörðinni og sjá okkur fyrir nauðsynlegri þjónustu sem gerir jörðina lífvænlega, auk þess sem um 1,6 milljón manns treysta á skóga sem sitt lifibrauð með einhverjum hætti. Auk þess gegna skógarnir mikilvægu hlutverki er varðar loftslagsbreytingar, líffræðilega fjölbreytni og fleira.

UNEP hvetur alla sem vettlingi geta valdið að taka þátt í aðgerðum í þágu umhverfisins, hvort sem það er að planta trjám, hætta að nota plastburðarpoka eða einfaldlega ganga eða hjóla í stað þess að nota bílinn.

Frekari upplýsingar um daginn má finna á heimasíðu WED.