Stök frétt


Umhverfisstofnun hefur óskað eftir tilnefningum í vatnasvæðisnefnd á hverju vatnasvæði landsins. Í vatnasvæðisnefndum skulu sitja fulltrúar Umhverfisstofnunar, sveitarfélaga, heilbrigðisnefnda og náttúruverndar- eða umhverfisnefnda ásamt fulltrúum ráðgjafanefndar fagstofnana og eftirlitsaðila og ráðgjafanefndar hagsmunaaðila. Fulltrúi Umhverfisstofnunar verður formaður vatnasvæðisnefndanna og boðar til funda.

Umhverfisstofnun vonast eftir skjótum og góðum viðbrögðum frá þessum aðilum og að tilnefningarnar berist stofnuninni eigi síðar en 1. desember næstkomandi. Búist er við að vatnasvæðisnefndir geti hafið störf strax í byrjun næsta árs.

 

Fjögur vatnasvæði landsins

Íslandi hefur verið skipt upp í fjögur vatnasvæði, sbr. kort hér fyrir neðan, og á hverju vatnasvæði skal starfrækja eina vatnasvæðisnefnd.

 

Mikilvægi vatnasvæðisnefnda í stjórn vatnamála

Hlutverk vatnasvæðisnefnda er skv. 6. gr. reglugerðar um stjórn vatnamála nr. 935/2011 að samræma vinnu á viðkomandi vatnasvæði og afla þar upplýsinga vegna gerðar stöðuskýrslu, vöktunaráætlunar, aðgerðaráætlunar og vatnaáætlunar sem Umhverfisstofnun mun hafa umsjón með. Í þessu fellst meðal annars að afla upplýsinga um hvar álag er á vatn á vatnasvæðinu og hverjir eru helstu álagsþættir sem valda óæskilegum áhrifum á vatn, setja fram umhverfismarkmið um að bæta eða viðhalda ástandi vatns, greina hvaða aðgerða er þörf til að þeim markmiðum verði náð og forgangsraða aðgerðum.

 

Vatnasvæðisnefndir eru vettvangur heimamanna
Vatnasvæðisnefndirnar eru meðal annars vettvangur hagsmunaaðila, s.s. fulltrúar frjálsra félagasamtaka, og almennings að hafa áhrif á stjórn vatnamála á sínu vatnasvæði, ýmist með því að hafa samband við nefndarmenn eða að fá að sitja fundi í vatnasvæðisnefnd. Þar geta þeir fengið upplýsingar á einum stað og haft áhrif stjórn vatnamála í sínu nærumhverfi sem það þekkir vel og nýtir. Þeir geta komið með ábendingar um mengun vatns, haft áhrif á setningu umhverfismarkmiða og ákvarðanir um aðgerðir til að bæta eða viðhalda ástandi vatns.