Stök frétt

Á umbúðum neytendavara má finna hin ýmsu merki og finnst mörgum erfitt að átta sig á því fyrir hvað þau standa. Það er ekkert skrýtið, enda eru merkin mörg og fela í sér mismunandi skilaboð. Þó er vert að kynna sér hvað algengustu merkin þýða því þau geta hjálpað neytandanum að taka upplýsta ákvörðum um vöruval. Á grænn.is eru upplýsingar um hvað helstu merkin standa fyrir.

Sum merkjanna ná til afmarkaðra  þátta eins og til dæmis þeirra hráefna sem notuð eru til framleiðslu, hversu mikla orku varan notar eða hvernig eigi að farga henni. Önnur merki eru ætluð til leiðbeiningar fyrir neytendur varðandi umhverfisáhrif vöru eða þjónustu. Norræna umhverfismerkið Svanurinn og Evrópublómið eru algengust slíkra merkja á Íslandi.

Með því að velja vöru sem er merkt Svaninum eða Evrópublóminu getur þú verið viss um að óháður aðili hafi gengið úr skugga um að varan hafi minni áhrif á umhverfið og heilsuna en almennt gerist með sambærilegar vörur á markaði. Umhverfisstofnun heldur utan um Svaninn og Evrópublómið hér á landi.

Svanurinn og Evrópublómið

  • Þau eru valfrjáls leið fyrirtækja til að sýna fram á umhverfislegt ágæti vöru eða þjónustu.
  • Tekið hefur verið tillit til umhverfisáhrifa á öllum lífsferli vörunnar, þ.e. gerð er krafa til þess hráefnis sem notað er í framleiðslu, framleiðslutækni, hvaða áhrif notkun vörunnar hefur og hvað verður um vöruna þegar henni er fargað.
  • Viðmiðin eru þróuð af sérfræðingum og úttekt er sinnt af óháðum þriðja aðila.
  • Viðmiðin eru hert reglulega sem tryggir sífelldar umbætur á umhverfislegu ágæti vörunnar.


Veljum vörur með Svaninum og Evrópublóminu.

Lærðu að þekkja merkin á grænn.is