Stök frétt

Nú má nálgast upptöku frá ársfundi Umhverfisstofnunar á YouTube síðu Umhverfisstofnunar.

Ársfundur Umhverfisstofnunar var haldinn fyrir fullum sal á Grand hótel í Reykjavík, sem fékk Svansleyfi veitt á fundinum. Kristín Linda Árnadóttir forstjóri Umhverfisstofnunar afhenti Ólafi Torfasyni, stjórnarformanni Grand Hótel Reykjavík vottunina. Fundurinn var sendur út í beinni útsendingu á umhverfisstofnun.is.

Aðalfyrirlesari var Maarten Hajer, forstjóri hollensku umhverfisstofnunarinnar og fjallaði um umhverfisupplýsingar og sjálfbæra framtíð: 

„Við vitum að til þess að viðhalda hagvexti og heilnæmu umhverfi, þurfum við að draga fimmfalt úr auðlindanýtingu og álagi á umhverfið. Áskorunin er að gera meira úr minna og það eru ekki til neinar töfralausnir. Við þurfum á grænni nýsköpun að halda.”

Marten Hajer er prófessor í Opinberri stefnumótun við Háskólann í Amsterdam frá 1998. Hann var skipaður forstjóri hollensku umhverfisstofnunarinnar árið 2008 og hefur gefið út fjölmargar bækur. Eitt hans þekktasta verk er „The Politics of Environmental Discourse” frá árinu 1995.

Magnús Jóhannesson, ráðuneytisstjóri umhverfisráðuneytisins flutti erindi fyrir hönd umhverfisráðherra. Í erindinu fjallaði hann um þá málaflokka sem efst hafa verið á baugi og einnig þá sem eru að eflast. Má þar nefna sérstaklega loftslagsmálin, þar sem viðskiptakerfi með losunarheimildir hefur verið innleitt og ný náttúruverndarlög. Einnig fjallaði hann um rammaáætlun sem er nýtt stjórnkerfi í umhverfismálum sem og tilvonandi ráðuneyti umhverfis- og auðlindamála sem mun styrkja málaflokk umhverfismála.

Kristín Linda Árnadóttir fór yfir helstu liði í starfsemi stofnunarinnar á síðasta ári. Bar þar hæst aukin miðlun upplýsinga, þar á meðal birting eftirlitsskýrslna og annarra upplýsinga um eftirlit með mengandi starfsemi. Einnig upplýsinga um umhverfismál fyrir almenning sem nálgast má á grænn.is. Á árinu voru friðlýst sjö ný svæði sem er frábær árangur en Kristín minnti einnig á að við þurfum að fjölga starfsfólki sem hefur umsjón með þeim svæðum sem hafa þegar verið friðlýst. Miklar breytingar hafa verið gerðar á eftirliti með mengandi starfsemi frá árinu 2008 og var árið 2011 fyrsta heila árið þar sem nýtt verklag stofnunarinnar var virkt. Beitingu þvingunarúrræða fjölgaði frá árinu 2010. Kristín sagði að undir lok árs hefði eftirlitskerfið og eftirfylgnin virkað eins og eins og við viljum að það geri þótt auðvitað sé sífellt unnið að betrumbótum. Loks fjallaði hún um grænt hagkerfi og sagði að nýting auðlinda jarðar stæði undir stórum hluta lífsgæða okkar og til þess að svo megi verða áfram verði sú nýting að vera sjálfbær. Í þeim efnum sé breyting á lífsháttum okkar nauðsynleg.

Skúli Helgason, þingmaður, kynnti þingsáætlunartillögu um Grænt hagkerfi sem nýlega var samþykkt á Alþingi og hefur verið í undirbúningi undanfarin tvö ár. Í henni er m.a. verkefnaáætlun þar sem tilgreind eru um 50 mál. Skúli sagði m.a. að grænt atvinnulíf sé forsenda hagvaxtar á 21. öldinni. Vísaði hann þar í væntanleg áhrif loftslagsbreytinga sem og vistspor Íslands. Nýlegar rannsóknir benda til þess að séu ein neyslufrekasta þjóð í heimi miðað við höfðatölu, ef ekki sú neyslufrekasta. Þingmaðurinn lagði áherslu á mikilvægi þess að tillagan hafi verið samþykkt samhljóða á Alþingi.

Eftir hlé voru flutt fjölmörg stutt erindi um ýmis málefni. Þar á meðal var fjallað um nýtt mat á díoxínlosun frá áramótabrennum, þar sem farið var í að mæla með nákvæmari hætti hversu mikið magn var brennt og einnig endurskoðaðir þeir stuðlar sem notaðir voru við útreikning í ljósi þess að strangari kröfur eru gerðar um hvers konar efni megi fara á brennur en áður. Frumniðurstöður benda til þess að díoxínmengun frá brennum sé umtalsvert minni en áður, og talið var í mati sem gert var á árinu 2008.

Fjallað var um upplýsingamiðlun hvað varðar eftirlit með mengandi starfsemi sem hafa tekið miklum breytingum í kjölfar vinnu sem hófst á árinu 2009. Frá og með 2011 er miðlað öllum eftirlitsskýrslum, mælingum í skýrslum úr eftirliti, upplýsingum um beitingu þvingunarúrræða og útdrætti um helstu aðalatriði í starfsleyfum (í vinnslu). Loks má nefna að fjölmiðlar, sveitarstjórn og heilbrigðiseftirlit fá sérstaklega sendar upplýsingar þegar fyrirtæki eru áminnt í kjölfar eftirlits.

Þá var einnig fjallað sérstaklega um eftirfylgni eftirlits og beitingu þvingunarúrræða. Þar kom fram að flest frávik eru hjá urðunarstöðum og misjafnt hversu mikla þvingun þarf til þess að brugðist sé við kröfum um úrbætur. Flest fyrirtæki þurfa einfalda ábendingu en önnur fá á sig dagsektir. 

Fjölmörg önnur fróðleg erindi, sem sjá má hér að neðan, voru einnig flutt á fundinum.

  • Díoxín og sorpbrennslur
  • Framkvæmdir á friðlýstum svæðum
  • Stjórn vatnamála
  • Viðskiptakerfi með losunarheimildir
  • Friðlýsingar
  • Gæðakerfi
  • Svanurinn í grænu hagkerfi
  • Loftgæði um áramót
  • Evrópugerðir um plöntuvarnarefni
  • Gagnsæi og miðlun upplýsinga
  • Hreindýrstarfar með vír á hornum
  • Beiting þvingunarúrræða og eftirfylgni eftirlits