Stök frétt

Ljósmyndakeppnin er í fullu fjöru en það styttist óðum í að henni ljúki og rennur skilfresturinn út á miðnætti 31. ágúst.

Keppnin felst í því að þátttakendur taki myndir á friðlýstum svæðum. Ekki er verra ef myndefnið hefur skírskotun í verndargildi viðkomandi svæðis, þ.e. hvað það er sem gerir viðkomandi svæði sérstakt eða ástæða friðunar. Upplýsingar um einstök friðlýst svæði og hvað það er sem er verndað á hverju þeirra fyrir sig er að finna hér á vef Umhverfisstofnunar og á vef Vatnajökulsþjóðgarðs.

Allir mega taka þátt og hver sem er má senda inn eins margar myndir og hann vill. Þrjú aðalverðlaun eru í boði, glæsileg Canon myndavél, prentari og þrífótur. Nánari upplýsingar um verðlaunin er að finna á vefsvæði keppninnar. Einnig verða valdar flottustu myndirnar fyrir tiltekin svæði og loks verður sýning með bestu myndunum opinberlega í haust. 

Hægt er að skoða valdar myndir á Flickr.

Allar nánari upplýsingar um keppnina, s.s. þátttökureglur og hvernig eigi að senda inn myndir eru að finna á vefsvæði keppninnar (ust.is/ljosmyndir). Ekki hika við að senda okkur fyrirspurn eða ábendingu.

Með því að taka þátt ertu að hjálpa okkur að gera öllum kleift að sjá og kynna sér hversu stórkostleg náttúran og friðlýst svæði á Íslandi eru því við munum nýta myndirnar í því skyni að búa til upplýsingaefni fyrir alla.

Gott er að láta góðan lýsandi texta fylgja myndunum.

Að keppninni standa Umhverfisstofnun og Vatnajökulsþjóðgarður.