Stök frétt

Fyrstu helgina í október mun Umhverfisstofnun taka þátt í tveggja daga alþjóðlegum viðburði þar sem sjálfboðaliðar í náttúruvernd koma saman og láta gott af sér leiða undir yfirskriftinni The Big Green Weekend.

Það er CVA (Conservation Volunteers Alliance) sem stendur fyrir þessum atburði og er það í annað sinn sem viðburðurinn fer fram í Evrópu.

Umhverfisstofnun er ein af stofnendum CVA og hefur stofnunin áhuga á að efla íslenskt sjálfboðaliðastarf með því að óska eftir að íslensk náttúruverndarsamtök taki þátt í verkefninu.

Markmið með Grænu helginni (The Big Green Weekend) er m.a. að vinna saman í þágu náttúruverndar, efla samstarf milli hópa, að kynnast sjálfboðaliðastarfi annarra og síðast en ekki síst ræða saman um náttúruvernd á Íslandi.

Sjálfboðaliðum verður skipt í 4 hópa sem munu vinna sjálfboðaliðastörf á friðlýstum svæðum í eða í nágrenni Reykjavíkur. Hver hópur verður með liðstjóra sem eru annað hvort landverðir eða verkstjórar í náttúruvernd (sjálfboðaliðar).

Verkefnin eru:

  • Eldborg í Bláfjöllum: Afmörkun göngustíga og endurheimt mosagróðurs.
  • Háubakkar: Hreinsun svæðis.
  • Rauðhólar: Lagfæring girðingar umhverfis svæðis og hreinsun þess.
  • Laugarás: Göngustígagerð, hreinsa gróður af klöppum (í samráði við jöklafræðing).
  • Reykjanesfólkvangur: Hreinsun svæða og endurheimt mosagróðurs við Leiðarenda.

Sjálfboðaliðar verða hvattir til að taka ljósmyndir af svæðinu sem þeir vinna á, áður en hafist er handa, meðan á vinnu stendur og eftir að úrbótum lýkur. Á sunnudeginum kynna síðan hóparnir verkefni sín og niðurstöður í máli og myndum.

Skráning fer fram hjá náttúruverndarsamtökunum og frestur er til 5. október kl 12 á hádegi.

Dagskrá: 

Laugardagur 6. október - Mæting að Suðurlandsbraut 24 kl. 9:00. Skipt verður niður í fjóra hópa og verkefnin kynnt stuttlega sem og liðstjórar (Tveir landverðir og tveir sjálfboðaliðar frá Englandi og Þýskalandi). Síðan fer hver hópur á sitt svæði og verður unnið þar til verkefnin eru búin en ekki seinna en til kl. 16.00. Að vinnudegi loknum er verkfærum skilað í áhaldaskúr UST á Seltjarnarnesi og sjálfboðaliðum skilað aftur að Suðurlandsbraut 24.

Sunnudagur 7. október - Mæting að Suðurlandsbraut 24 kl. 10:00. Hver hópur fundar í sínu herbergi og undirbýr kynningu á sínu verkefni. Eftir hádegi verður hádegismatur snæddur og niðurstöður kynntar. Að kynningum loknum verður rætt saman um sjálfboðaliðastörf og náttúruvernd.

Tenglar

Myndir frá sjálfboðaliðstarfi:

 

Höfundur myndar: Anna Lefering

 

Höfundur myndar: Reg Carremans

 

 

Höfundur myndar: Lee Dunn