Stök frétt

Eftirlit og starfsleyfisútgáfa Umhverfisstofnunar var yfirfarin af IMPEL (samstarf stofnana í Evrópu um innleiðingu og eftirfylgni umhverfislöggjafar) í ágúst síðastliðnum. Til landsins kom teymi sex sérfræðinga í eftirliti með mengandi starfsemi  frá Bretlandi, Hollandi, Ítalíu, Noregi, Póllandi og Finnlandi. Þá var einnig með í för starfsmaður IMPEL. Farið var yfir meginþætti eftirlits Umhverfisstofnunar með mengandi starfsemi. Ísland var 17. landið sem fer í gegnum slíka yfirferð. Skýrsla IMPEL var samþykkt á fundi samtakanna á Kýpur í byrjun desember 2012 og er nú birt í heild sinni.

Meginniðurstöðurnar voru þær að uppbygging og framkvæmd eftirlitsins hérlendis sé sambærilegt því sem gerist í Evrópu og uppfyllir lágmarksviðmið.

  • „markmið ESB umhverfisréttar á starfssviði Umhverfisstofnunar eru uppfyllt.“
  • „fyrirkomulag eftirlits og eftirfylgni er í meginatriðum í samræmi við tilmæli EB (RMCEI: Recommendation for Minimum Criteria for Environmental Inspections).“

Í skýrslunni er nefnd fjölmörg dæmi um atriði sem eru til fyrirmyndar og sömuleiðis tækifæri til þess að gera enn betur. Helstu atriðin sem teymið nefnir:

Til fyrirmyndar

  • Upplýsingagjöf til almennings í gegnum vefsíðu og til fjölmiðla er til fyrirmyndar og leiðandi í Evrópu.
  • Stofnunin megi vera stolt af gagnagrunnum og upplýsingatækni. Tekist hefur að búa til vinnutæki sem standast samanburð við það sem þekkist í Evrópu en eru bæði einföld og ódýr.
  • Sjálfstæð úrskurðarnefnd hefur verið sett á fót hérlendis sem einfaldar mjög athugasemda- og kæruferli vegna ákvarðana.

Tækifæri

  • Endurheimta að fullu kostnað við útgáfu leyfa og eftirlit í samræmi við mengunarbótaregluna. Aðeins hluti kostnaðar er endurheimtur í dag og kemur það sem upp á vantar úr ríkissjóði.
  • Starfsmenn sem sinna útgáfu starfsleyfa og eftirliti skipti um störf reglulega til að dreifa þekkingu og færni. Markmiðið er að draga úr hættunni á tapaðri þekkingu.
  • Innleiða áhættumat fyrir starfsleyfishafa til þess að kröftum sé beint þangað sem þeirra er þörf. Svo sem með því að fara oftar í eftirlit á suma staði en sjaldnar á aðra eftir áhættumatinu.

Umhverfisstofnun hefur frá árinu 2008 gert viðamiklar breytingar á starfi stofnunarinnar hvað varðar eftirlit með mengandi starfsemi. Yfirferð IMPEL var liður í því og staðfestir að margvíslegum árangri hefur verið náð og sömuleiðis hvað þurfi að styrkja enn frekar. Stofnunin tekur undir öll atriðin sem fram koma í skýrslunni. Mörg þeirra eru þegar komin í vinnslu og önnur á áætlun næstu ára. Áfram verður stefnt að því að gera eftirlitið markvissara en fagnaðarefni er að tekist hefur að styrkja eftirlitið á undanförnum árum þrátt fyrir niðurskurð. Hér að neðan er fjallað um helstu atriðin ögn nánar en fjölmörg fleiri atriði voru nefnd sem lesa má um í skýrslunni.

Fámenn stofnun

Teymið telur að því fylgi áskoranir hversu fámenn Umhverfisstofnun er. Sérfræðiþekking á málaflokkum er yfirleitt á hendi einstakra starfsmanna og mikil þekking og reynsla glatast þegar einstaka starfsmenn hætta. Lagt er til að starfsmenn sem vinna við eftirlitsmál, s.s. starfsleyfisútgáfu og eftirlit, skipti um störf til þess að öðlast reynslu og þekkingu á fleiri þáttum. Það geti dregið úr þekkingartapinu þegar starfsmenn hætta og sömuleiðis aukið þekkingu og reynslu starfsmanna.

Upplýsingar til almennings

Í skýrslunni er þess sérstaklega getið að birting eftirlitsskýrslna og gagna úr eftirliti á heimasíðu auk þess að  gera fjölmiðlum viðvart sé til fyrirmyndar fyrir önnur Evrópuríki. Ísland sé leiðandi í þessum efnum og geti miðlað af sinni reynslu til annarra Evrópuríkja.

Endurheimt kostnaðar

Í yfirferðinni kom í ljós að aðeins hluti þess kostnaðar sem fellur til vegna starfsleyfisútgáfu og eftirlits er endurheimtur með gjöldum á þá sem fá starfsleyfi og eftirlit hjá stofnuninni. Samkvæmt mengunarbótareglunni skulu þeir sem valda mengun bera kostnaðinn sem fellur til hjá hinu opinbera vegna þessa. Teymið leggur til að sá kostnaður sé endurheimtur að fullu.

Mælingar og vöktun

Teymið gerði ekki athugasemdir við núverandi fyrirkomulag vöktunar og mælinga en taldi rétt að stofnunin fengi fjármagn til þess að láta framkvæma eigin mælingar eftir þörfum. Það er fyrst og fremst til að sannprófa fyrirliggjandi mælingar og tryggja gæði mælinga.

Upplýsingatækni

Teymið var hrifið af gagnagrunni fyrir eftirlit með mengandi starfsemi sem hefur verið í þróun að undanförnu hjá Umhverfisstofnun. Bæði með tilliti til þess hversu ódýr og sveigjanlegur hann er sem og tengingu hans við spjaldtölvur.  Víða í Evrópu tekur langan tíma að gera breytingar á gagnagrunnum og kostnaður oft mjög mikill.

Fyrirvaralaust eftirlit

Umhverfisstofnun hefur fjölgað fyrirvaralausum eftirlitsferðum en hlutfall skipulagðs eftirlits og fyrirvaralauss eftirlits er að mati teymisins lágt hérlendis. Því mætti enn fjölga fyrirvaralausum eftirlitsferðum. Sérstaklega væri hægt að nýta svigrúm sem myndast með áhættumati og fækkun eftirlitsferða til tiltekinna starfsleyfishafa.

 Stjórnvaldssektir

Umhverfisstofnun hefur komið óskum um heimildir til að leggja á stjórnvaldssektir við umhverfis- og auðlindaráðuneytið sem hefur það til skoðunar. Teymið telur að slíkar sektir geti verið gagnlegar í eftirfylgni eftirlits.

Tengt efni