Stök frétt

Fimmtudaginn 13. desember sl. stóð Umhverfisstofnun, í samvinnu við Samtök atvinnulífsins og Samtök verslunar og þjónustu, fyrir upplýsingafundi um sæfiefni. Til sæfiefna (biocides) flokkast ýmis sótthreinsandi efni til yfirborðsmeðhöndlunar og til nota í matvælaframleiðslu, iðnaði, innan heilbrigðisgeirans og á stofnunum, rotvarnarefni til að tryggja geymsluþol efna eða til varnar vexti örvera (matvæli eru undanskilin), útrýmingarefni  t.d. skordýraeyðar, nagdýraeitur, einnig gróðurhindrandi efni sem notuð eru í botnmálningu skipa.

Til ráðstefnunnar var boðað til að kynna nýja evrópska reglugerð um sæfiefni sem tekur gildi í september 2013.  Samkvæmt henni eru sæfivörur sem ekki hafa markaðsleyfi eftir tiltekinn tíma ólöglegar og þ.a.l. teknar af markaði.  Sækja þarf um leyfi í hverju landi fyrir sig á evrópska efnahagssvæðinu og sér Umhverfisstofnun um leyfisveitingar hér á landi. 

Í erindi Umhverfisstofnunar var stiklað á stóru varðandi reglugerðarumhverfi sæfiefna á Íslandi í dag, sæfiefnaflokkana og helstu breytingar með nýju reglugerðinni. Skráningarkerfið R4BP, sem notað er við umsókn um markaðsleyfi, var einnig kynnt

Gestafyrirlesari var Ian Pepper sem starfar sem ráðgjafi og hefur margra ára reynslu af störfum á sviði varnar- og sæfiefna hjá alþjóðlegum fyrirtækjum.  Hann fór yfir sögu sæfiefnalöggjafarinnar í evrópu Hann benti framleiðendum og innflytjendum sæfiefna og –vara að vera tilbúna fyrir breytingarnar þar sem leyfisferillinn væri bæði tímafrekur og kostnaðarsamur.   Hann ítrekaði mikilvægi þess að vera í góðu sambandi við birgjana þar sem fyrirséð er að færri fyrirtæki munu hafa leyfi til að selja virku efnin í sæfivörur.  Því væri mikilvægt að kanna hvort framleiðendur virku efnanna sem þeir nota muni skrá virku efnin því búast má við fækkun virkra efna í sæfivörur á markaði. Ian nefndi einnig mikilvægi þess viðhalda eftirliti með sæfivörum á markaði til að fyrirbyggja að ólöglegar vörur séu á markaði á kostnað þeirra sem sótt hafa um markaðsleyfi fyrir sínar vörur.

Glærur