Stök frétt

Hjá Umhverfisstofnun eru laus til umsóknar tvö störf sérfræðinga á sviði loftslagsmála og viðskiptakerfis með losunarheimildir gróðurhúsalofttegunda. 

Sérfræðingarnir munu starfa innan öflugs hóps sérfræðinga að verkefnum stofnunarinnar tengt loftslagsmálum þar sem lögð er áhersla á samvinnu innan hópsins. Mikil samskipti eru við evrópskar og alþjóðlegar stofnanir. 

Starf A. Verksvið sérfræðingsins er umsjón, eftirlit og utanumhald með losun gróðurhúsalofttegunda frá flugstarfsemi en Umhverfisstofnun hefur umsjón með hátt á þriðja hundrað flugrekenda víða að úr heiminum í tengslum við viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir. 

Starf B. Verkefni sérfræðingsins lúta að söfnun gagna, utanumhaldi og útreikningi á losun gróðurhúsalofttegunda frá staðbundinni starfsemi og dreifðum uppsprettum á Íslandi. 

Hæfniskröfur 

Starf A: Meistarapróf í umhverfisfræðum, raungreinum eða sambærilega menntun. Jafnframt koma til greina aðilar með sambærilegar gráður í viðskiptafræði, hagfræði eða líkum greinum. Þekking á umhverfismálum er forsenda ráðningar 

Starf B: Háskólapróf í raungreinum. 

 Gerð er krafa um góða þekkingu á gagnagrunnum og/eða töflureiknum í bæði störfin, þar sem unnið er með umfangsmikil gagna- og talnasöfn. Þekking á loftslagsmálum og ETS-kerfinu er æskileg. 

Auk framangreindra krafna verða eftirfarandi þættir um þekkingu, reynslu og hæfni hafðar til viðmiðunar við val á starfsmönnum: 

  • Þekking á loftslagsmálum og ETS-kerfinu. 
  • Skipulögð og öguð vinnubrögð
  • Þekking á opinberri stjórnsýslu
  • Kunnátta í íslensku og ensku og þekking á Norðurlandamáli 
  • Hæfni í framsetningu upplýsinga á skrifuðu og töluðu máli 
  • Samstarfshæfni og lipurð í mannlegum samskiptum 

Næsti yfirmaður sérfræðinganna er Kristján Geirsson deildarstjóri, sem veitir nánari upplýsingar um störfin ásamt Sigrúnu Valgarðsdóttur starfsmannastjóra í síma 591 2000. Laun eru samkvæmt kjarasamningi fjármálaráðherra og hlutaðeigandi stéttarfélags. 

Bæði konur og karlar eru hvött til að sækja um starfið. 

Æskilegt er að sérfræðingarnir geti hafið störf sem fyrst. Föst starfsaðstaða þeirra getur verið í Reykjavík, Hellissandi, Patreksfirði, Ísafirði, Akureyri, Mývatni, Egilsstöðum eða Vestmannaeyjum, allt eftir búsetu umsækjanda. Gert er ráð fyrir að gagnkvæmur reynslutími sé sex mánuðir við ráðningu.

Umsóknir skulu sendar til Umhverfisstofnunar, Suðurlandsbraut 24, 108 Reykjavík eða á netfangið ust@ust.is eigi síðar en 28. janúar 2013. Í umsókn skal koma fram um hvort starfið er sótt um.