Það verður ekki ofsögum sagt af mikilvægi þess að við tryggjum til framtíðar þessi háu lífsgæði með skipulagi og styrkri stjórn vatnamála og jafnframt að við fylgjumst með ástandi vatns, viðhöldum vöktun á gæðum þess.
Umhverfisstofnun leiðir samstarf ráðuneyta, stofnana, sveitarfélaga, heilbrigðisnefnda, hagsmunaaðila og rannsóknaraðila við innleiðingu á stjórn vatnamála í samræmi við lög nr. 36/2011. Stofnunin hefur auglýst opinberlega drög að fyrstu stöðuskýrslunni um ástand vatns á og við Ísland en þar er leitað svara við því hvaða þættir geti valdið álagi á vatn á Íslandi. Drögin eru aðgengileg á heimasíðu stofnunarinnar og á slóðinni www.vatn.is og gefst hverjum sem er færi á að kynna sér drögin og koma að ábendingum og upplýsingum í tengslum við drögin. Frestur til að skila inn athugasemdum er til 7. júní.
Í anda samvinnu munu umhverfis- og auðlindaráðuneytið, fimm stofnanir ríkisins og Háskóli Íslands halda ráðstefnu um vatn og vatnsgæði á Íslandi. Ráðstefnan verður haldin í Nauthól, í dag, 22. mars, á degi vatnsins. Forstjóri Umhverfisstofnunar, Kristín Linda Árnadóttir, mun setja ráðstefnuna kl. 13:00 og henni lýkur kl. 17:00.
Lög um stjórn vatnamála voru samþykkt á Alþingi árið 2011. Markmið þeirra er að tryggja verndun vatns og gæði þess til framtíðar. Að því verkefni þurfa margir aðilar að koma og vinna saman, s.s. stjórnvöld, fyrirtæki, vísindamenn og almenningur. Þekking á stöðu mála og skilningur á orsökum og afleiðingum álagsþátta s.s. efnamengunar er mjög mikilvæg forsenda verndunar.
Ein leið til að greina efnamengun er að kortleggja íbúadreifingu og athafnir manna og leggja mat á losun úrgangsefna. Önnur leið er að kanna með beinum mælingum ástand umhverfisins. Efnamengun er aðeins ein gerð álags. Ýmsar athafnir manna sem valda breytingum í rennsli, hafa áhrif á vatnsmagn og breyta samfellu stranda og farvega skapa líka álag sem getur haft áhrif á ástand vistkerfa.
Ráðstefnan er öllum opin enda vatn auðlind sem varðar okkur öll.