Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Umhverfisstofnun hefur fylgst með þróun flúormengunar í Reyðarfirði frá árinu 2012 þegar losun frá álveri Alcoa fór yfir leyfileg mörk skv. starfsleyfi. Gerðar voru úrbætur að kröfu Umhverfisstofnunar hjá álverinu hvað varðar mælingar og hreinsibúnað. Þá var vöktun aukin í kjölfarið til þess að fylgjast nánar með þróun mála og m.a. farið yfir mælingar, ásamt sérfræðingum Matvælastofnunar og forsvarsmönnum Alcoa, á tveggja vikna fresti sumarið 2013.

Mælingar sýna að ársmeðaltal flúors í grassýnum í Reyðarfirði mælast hærri en í nágrenni annarra iðjuvera hérlendis. Meðaltalið var við viðmiðunarmörk árin 2010 og 2013 en yfir þeim mörkum árið 2012.

Nýlega bárust mælingar á flúor í kjálkabeinum ásamt sjónskoðum á tönnum. Þær mælingar sýna hækkun milli ára á flúormagni í grasbítum, bæði hjá lömbum og kindum. Ein mæling er við neðri mörk viðmiðunarmarka, 3910 µg/g í beinösku (viðmiðunarmörk eru 4000-6000 µg/g). Sjónskoðun dýralæknis á dýrum og greining á beinum og tönnum benda ekki til greinilegrar flúoreitrunar.

Þessar niðurstöður hafa verið kynntar og ræddar við forsvarsmenn Alcoa Reyðarfirði sem og Matvælastofnun. Stofnunin mun á næstunni fara ítarlega yfir þessar niðurstöður sem og aðrar mælingar sem gerðar hafa verið til þess að leggja mat á þróunina. Haft verður samráð við aðrar stofnanir, s.s. Matvælastofnun hvað varðar velferð dýranna.

Það er mat dýralæknis að fylgjast þurfi áfram náið með tannheilsu dýra og hugsanlega mæla flúor í blóði eða þvagi dýra. Í skýrslu Tilraunastöðvarinnar að Keldum kemur einnig fram að hætta sé flúorskemmdum í fé vegna hækkandi gilda þótt ekki sjáist þess merki enn sem komið er.

Umhverfisstofnun mun áfram fylgjast náið með þróun mála í Reyðarfirði enda ljóst að gildi á flúor eru þar hærri en í kringum önnur álver hérlendis. Meðaltalsgildið fór yfir viðmiðunarmörk árið 2012 og nálægt viðmiðunarmörkum árin 2010 og 2013. Starfsleyfi á að endurskoða reglulega og hefur Umhverfisstofnun heimildir til að endurskoða einstök ákvæði þyki ástæða til. 

Lesa má samantekt um eftirfylgni Umhverfisstofnunar með flúormengun í Reyðarfirði í frétt sem birt var á umhverfisstofnun.is þann 18. desember 2013. Allar upplýsingar úr eftirliti stofnunarinnar með álveri Alcoa er að finna á sérstakri upplýsingasíðu þess efnis.

Tengt efni