Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Frá 4. febrúar næstkomandi verður gestastofa Þjóðgarðsins Snæfellsjökuls opin alla virka daga en lokuð um helgar. Hingað til hefur gestastofan aðeins verið opin frá 20. maí til 10. september. 

Á undanförnum árum hefur ferðamönnum fjölgað mikið og er nú svo komið að þónokkur fjöldi heimsækir landið að vetri til. Undanfarin ár hafa stjórnvöld lagt áherslu á að efla ferðaþjónustu á þeim árstíma undir kjörorðinu, „Ísland allt árið.“ Ferðaþjónustan á Vesturlandi svo og Snæfellsbær hafa einnig lagt áherslu á að auka ferðaþjónustu á veturna, í takt við stefnu stjórnvalda. 

Gestastofa þjóðgarðsins er á Hellnum. Hún var opnuð sumarið 2004 í fyrrverandi fjárhúsum. Þema sýningarinnar í gestastofunni er vermaðurinn og náttúran og er leitast við að sýna hvernig vermenn nýttu náttúruna til að sjá sér farboða. Höfðað er til allra skilningarvitanna og eru gestir hvattir til að smakka, lykta og reyna. Hægt er að finna eitthvað skemmtilegt fyrir fólk á öllum aldri í gestastofunni. Þar má einnig nálgast upplýsingar og fræðslu um svæðið undir Jökli hjá landvörðum sem þar starfa. 

Nýverið var rekstur Vatnshellis innan þjóðgarðsins boðinn út með það að markmiði að auka þá þjónustu sem veitt er í tengslum við hann, sérstaklega utan sumartímans.

 Opnunartími gestastofunnar 2014 

  • Febrúar: kl. 11-15 
  • Mars – maí: kl. 11-16 
  • Júní – ágúst: kl. 10-17 
  • Sept. - okt.: kl. 11-16 
  • Nóvember: kl. 11-15 

 Tengt efni