Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Í dag er mikið rætt um notkun á sótthreinsandi efnum í neytendavörum og þau áhrif sem það getur haft í för með sér. Ekki er vitað nægilega mikið um hver áhrifin eru á líkamann við snertingu húðar við fatnað sem meðhöndlaður hefur verið með sæfivörum og einnig hafa vísindamenn áhyggjur af því að ofnotkun á sótthreinsandi efnum gæti leitt til ónæmis fyrir sýklalyfjum. 

Meðhöndluð vara getur verið efni, blanda eða vara sem hefur verið meðhöndluð með einni eða fleiri sæfivörum, t.d. sótthreinsandi efnum. Dæmi um slíkar vörur eru sturtuhengi, íþróttafatnaður, skór, hjólasæti, hreingerningarklútar og ýmis eldhúsáhöld. 

Stundum er nauðsynlegt að meðhöndla vörur með sæfandi virkum efnum en deilt er um nauðsyn þess að meðhöndla aðrar vörur eins og hjólasæti og skurðarbretti í eldhús.  

Í nýrri reglugerð um sæfivörur, sem tekur brátt gildi hér á landi, þarf aðilinn sem ber ábyrgð á markaðssetningu meðhöndluðu vörunnar að sjá til þess að á merkimiðanum séu eftirfarandi upplýsingar: 

  • yfirlýsing um að meðhöndlaða varan innihaldi sæfivörur, 
  • hvaða sæfandi eiginleika meðhöndlaða varan hefur, ef færð eru rök fyrir þeim 
  • heiti allra virku efnanna sem sæfivörurnar innihalda, 
  • heiti allra nanóefna sem sæfivörurnar innihalda með orðinu „nanó“ í sviga á eftir 
  • allar viðeigandi notkunarleiðbeiningar, þ.m.t. allar varúðarráðstafanir sem gera þarf vegna virku efnanna sem varan var meðhöndluð með eða sem hún inniheldur. 

Birgir meðhöndlaðrar vöru skal veita neytanda, að beiðni neytandans, upplýsingar um meðhöndlun vörunnar með sæfiefni innan 45 daga og án endurgjalds. 

Starfsmaður Umhverfisstofnunar sótti norrænt námskeið um meðhöndlaðar vörur með sótthreinsieiginleika í ágúst 2013. Þar var rætt um mögulega áhættu fyrir heilsu fólks og umhverfi vegna ofgnótt þessara vara. Þá var einnig rætt um hvernig hægt væri að fækka ónauðsynlegum meðhöndluðum vörum til að koma í veg fyrir þessa áhættu. Í framhaldi af þessu námskeiði var ákveðið að vinna samnorrænt verkefni árið 2014 sem gengur út á að fræða birgja og söluaðila um skyldur þeirra gagnvart neytendum vegna meðhöndlaðra vara sem þeir markaðssetja.