Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Gefin hefur verið út verndar- og stjórnunaráætlun en í henni er fjallað um nauðsynlegar verndaraðgerðir, landvörslu og landnýtingu, s.s. aðgengi ferðamanna að svæðinu, stígagerð og uppbyggingu þjónustumannvirkja o.fl. 

Hverfjall/Hverfell er stór, hringlaga öskugígur sem talinn er vera einn sá stærsti sinnar tegundar á jörðinni. Hverfjall myndaðist í þeytigosi fyrir um 2500 árum. Gígurinn er óvenjulegur að því leyti að gígskálin er álíka djúp og gígurinn er hár. 

Til að tryggja að verndargildi svæðisins rýrni ekki er nauðsynlegt að byggja upp innviði þess og fræða gesti. Meðal helstu atriða sem tiltekin eru í áætluninni má nefna: 

  • Ummerkjum eftir gamlar gönguslóðir utan merktra gönguleiða í hlíðum gígsins verður eytt. Vinna er þegar hafin. 
  • Útbúið verður fræðslu- og upplýsingaefni fyrir svæðið. Efnið verður endurskoðað og uppfært reglulega. 
  • Tryggja þarf fjármuni til nauðsynlegrar uppbyggingar innviða til að stuðla að verndun svæðisins og betri upplifun gesta sem heimsækja það.
  • Göngustígurinn sem liggur upp á gíginn að sunnan verður lagaður eins og kostur er til að draga úr slysahættu. Til þess að svo megi verða kann að þurfa að breyta legu hans. 
  • Séð verður til þess, í samstarfi við landeigendur og sveitastjórn, að heildstæð áætlun verði gerð um uppbyggingu göngustíga og skilta í náttúruvættinu og í nágrenni þess. Gert er ráð fyrir að þetta starf hefjist veturinn 2013-2014.
  • Byggt verður þjónustuhús og áningaraðstaða við uppgönguna norðvestan megin við gíginn. 
  • Settar verða upp hjólagrindur við uppgönguleiðir á gíginn. 

Hverfjall/Hverfell var friðlýst sem náttúruvætti þann 22. júní 2011. Markmiðið með friðlýsingunni er verndun þessarar sérstæðu jarðmyndar. Þá hefur svæðið mikið fræðslu- og útivistargildi. Gígurinn er vinsæll viðkomustaður ferðamanna sem fara um Mývatnssveit. 

 Tengt efni