Umhverfistofnun - Logo

Stök frétt

Baark arkitektastofa vinnur að gerð deiliskipulags fyrir Látrabjargssvæðið sem er samstarfsverkefni landeigenda, Vesturbyggðar, Umhverfisstofnunar og ferðamálasamtaka. Deiliskipulagssvæðið er nr. 307 á náttúruminjaskrá og nær yfir þrjár jarðir: Hvallátra, Breiðavík og Keflavík samtals 89,6 km2 að stærð. Í deiliskipulaginu er m.a. lögð áhersla á: sögulega arfleið og menningarlegt hlutverk svæðisins, öryggi ferðamanna, að framkvæmdir falli sem best að umhverfinu, staðsetningu útsýnisstaða, gerð og legu göngustíga á Bjargtöngum, aðkomu að þjónustu og gæði merkinga og skilgreiningu bílastæða fyrir fólksbíla og rútur. Á Hvallátrum er gert ráð fyrir að vegurinn sem liggur í gegnum miðja frístundabyggðina verði fluttur uppfyrir byggðina til að auka umferðaröryggi þar sem umferð hefur aukist mikið undanfarin ár á svæðinu. 

Deiliskipulagið er unnið í samræmi við stefnumörkun Vesturbyggðar í aðalskipulagi 2006-2018. Þar kemur fram að mikilvægt sé að vernda svæðið skv. náttúruverndarlögum sem friðland eða þjóðgarður og samkvæmt náttúruverndaráætlun 2009-2013 er gerð tillaga að friðlýsingu svæðisins og hófst sú vinna í janúar 2011. Síðastliðið haust var skipaður starfshópur til að vinna verndar- og stjórnunaráætlun með það í huga að svæðið verði gert að þjóðgarði. Í starfshópnum eiga sæti fulltrúar landeigenda, Vesturbyggðar, Umhverfisstofnunar og freðamálasamtaka. Stefnt er á að þeirri vinnu ljúki í Janúar 2015. 

Deiliskipulagstillaga ásamt umhverfisskýrslu hefur verið auglýst og verður til sýnis á skrifstofu tæknideildar Vesturbyggðar, Aðalstræti 75 frá og með 24. febrúar til 8. apríl 2014 og á heimasíðu Vesturbyggðar.

Uppfært - 16. apríl

Ákveðið hefur verið að framlengja auglýsingar og athugasemdarfresti á tillögu að deiliskipulagi fyrir Látrabjarg um 6 vikur frá 11. apríl til 26. maí. Öllum athugasemdum sem berast verður svarað efnislega þegar seinni athugasemdarfrestartími er liðinn.