Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Umhverfisstofnun gerði athugasemdir við söfnun úrgangs, m.a. spilliefna, og tilraun til að flytja úrgang úr landi án leyfa þegar moldóvíska flutningaskipið Just Mariiam var við höfn í Hafnarfirði í janúar sl. Áður hefði skipið haft viðkomu á Höfn í Hornafirði. 

Stofnunin fór í fyrirvaralaust eftirlit í skipið eftir að ábendingar bárust um hugsanlega ólöglega starfsemi og án starfsleyfa. Áætlunarstaður skipsins var Líbanon. Eftir að skipverjar gátu ekki framvísað umbeðnum gögnum um farm skipsins og eftir nánari skoðun á farmi skipsins komst stofnunin að þeirri niðurstöðu að farmurinn væri úrgangur sem innihélt m.a. spilliefni sem óheimilt er að flytja á milli landa nema með leyfi umhverfisyfirvalda í sendi- og móttökuríki. 

Stofnunin kærði starfsemi skipsins og annarra sem staðið höfðu að söfnun úrgangsins til lögreglu vegna brota sem þegar höfðu átt sér stað og áformaði áminningu á hendur útgerð skipsins fyrir tilraun til útflutnings. Um var að ræða á milli 800-900 tonn af brotajárni, ásamt gömlum/ónýtum tækjum og vélum. 

Eftir samstarf útgerðarinnar og Nesskipa hf., umboðsaðila skipsins hér á landi, við Efnamóttökuna hf., sem er spilliefnamóttaka, ákvað stofnunin að viðunandi úrbætur hefðu verið gerðar eftir að töluvert magn spilliefna hafði verið fjarlægt úr farmi skipsins. Lögregla hafði þá tilkynnt að kæru stofnunarinnar yrði vísað frá. 

Umhverfisstofnun átti í góðu samtarfi við önnur stjórnvöld í málinu, einkum embætti Tollstjóra, sem gat beitt heimildum sínum varðandi tollafgreiðslu til að koma í veg fyrir að skipið sigldi úr landi án leyfa. 

Rétt er að bæði stjórnvöld og aðrir hagsmunaaðilar hér á landi fylgist með slíkri söfnun úrgangs í formi gamalla og ónýtra véla og tækja og annars brotajárns sem ætlunin er að flytja úr landi án leyfa. Í kjölfar málsins hafa opinberir aðilar sem komu að málinu átt fundi hvar reynt er að nýta þá reynslu sem fékkst af þessu máli. Umhverfisstofnun vinnur nú að gerð verkferla með Tollstjóra ef grípa þarf aftur til aðgerða vegna sambærilegra mála. Einnig er unnið að upplýsingagjöf til hafna landsins um söfnun, meðhöndlun og flutning úrgangs ásamt samræmingu á meðal heilbrigðisnefnda um landið allt.