Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Umhverfisstofnun hefur samið við Hellaferðir slf. um rekstur á Vatnshelli, sem er í þjóðgarðinum Snæfellsjökli, til tveggja ára. Samningurinn er sá fyrsti sinnar tegundar en þarna er stigið mikilvægt skref í að tengja nærsamfélagið betur við þjóðgarðinn og hefur hellirinn með beinum hætti skapað heimamönnum atvinnu í þjóðgarðinum. 

Vatnshellir er í Purkhólahrauni í þjóðgarðinum Snæfellsjökli. Hann var gerður aðgengilegur almenningi í þeim tilgangi að vernda hann, kynna hella og hellavernd og um leið að hvetja fólk til góðrar umgengni um hella og náttúru landsins. 

Markmið samningsins er meðal annars að tryggja að almenningur geti notið heimsókna í Vatnshelli allan ársins hring gegn hæfilegu gjaldi, en hluti gjaldsins mun renna aftur til hellisins og verða nýtt til að bæta innviði og umhverfi hans og þannig tryggja verndun hans til frambúðar. Hellaferðir munu vinna í nánu samstarfi við starfsmenn þjóðgarðsins og Umhverfisstofnunar að því er varðar skipulag ferða og fræðslu í hellinum. Hellaferðir sáu um rekstur hellisins á síðasta ári í tilraunaskyni. Eigendur Hellaferða eru feðgarnir Þór Magnússon og Ægir Þór Þórsson sem búsettir eru á Gufuskálum en þeir lögðu báðir hönd á plóginn við að gera hellinn aðgengilegan almenningi.