Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Mynd: Jóhann Óli Hilmarsson
Undanfarin tvö ár hefur ríkið ekki tekið þátt í kostnaði sveitarfélaga við refaveiðar. Nú verður breyting á því þar sem á fjárlögum er gert ráð fyrir 30 milljónum á ári í verkefnið til næstu þriggja ára. Forsenda fjárveitingarinnar er að gerðir verði samningar við sveitarfélögin um endurgreiðslur. Gert er ráð fyrir að endurgreiðslan nemi allt að þriðjungi kostnaðar sveitarfélaga. 

Stofnunin hefur útbúið drög að áætlun til þriggja ára um refaveiðar. Markmiðið með áætluninni er að tryggja upplýsingaöflun og samráð við helstu hagsmunaaðila. Þannig megi byggja upp enn betri grunn fyrir ákvarðanatöku um veiðar á ref. Að þremur árum liðnum má gera ráð fyrir að betri upplýsingar um stofnstærð refsins um land allt liggi fyrir sem og frekari upplýsinga um tjón. Áætlunin var unnin að höfðu samráði við Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Drögin hafa verið til umfjöllunar á samráðsvettvangi með sambandinu og Náttúrufræðistofnun Íslands. 

Lögð er áhersla á eftirfarandi atriði eins og kemur fram í fyrrgreindum drögum: 

  • Veiðiálag verði sem næst óbreytt eins og verið hefur. Áætlunin verði þó endurskoðað árlega á samningstímanum. 
  • Greitt verði fyrir refaveiðar samkvæmt samkomulagi milli Umhverfisstofnunar og sveitarfélaga, sem byggir á þeirri áætlun sem sveitarfélagið leggur fram. 
  • Tekið verði tillit til sanngirnissjónarmiða, þ.a. smá en landstór svæði gætu því fengið hlutfalllega hærri kostnað greiddan en stór sveitarfélög sem eru landlítil og/eða ágangur refa ekki vandamál. 
  • Sátt náist um hvaða atriði beri að leggja til grundvallar við mat á tjóni af völdum refa. 
  • Veiðiálag á tilteknum svæðum verði metið og ákveðið í ljósi þess tjóns sem refur er talinn valda á viðkomandi svæði. 
  • Miðlæg skráning grenja hjá Umhverfisstofnun verði bætt. 
  • Lögð verði áhersla á veiðiálag (grenjavinnslu eða vetrarveiði) í samræmi við áætlað tjón eftir svæðum. 
  • Efla samvinnu milli sveitarfélaga varðandi refaveiðar þar sem það á við. . 
  • Lagt er til að sveitarfélög sem eru með meðalveiðar upp á 10 refi á ári eða færri yfir þetta tímabil gangi inn í áætlun með öðru sveitarfélagi/sveitarfélögum. 
  • Skoðað verði hvort umbuna eigi sérstaklega fyrir góða upplýsingagjöf, s.s. vegna mats á tjóni og grenjaskráningu. 

Öllum er heimilt að senda inn umsögn eða athugasemdir við drögin í gegnum vefinn fyrir 11. maí næstkomandi. Nánari upplýsingar veitir Steinar Rafn Beck í síma 591-2000.