Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Sigurður Ingi Jóhannsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, staðfesti sl. miðvikudag tvær friðlýsingar innan marka Garðabæjar. Um er að ræða annars vegar friðlýsingu Búrfells, Búrfellsgjár og eystri hluta Selgjár sem náttúruvætti en alls er þar um að ræða 323 hektara. Hins vegar Garðahraun neðra, Garðahraun efra, Vífilsstaðahraun og Maríuhella í Búrfellshrauni sem nú eru friðlýst sem fólkvangur en alls eru það um 156,3 hektarar.

Búrfell

Búrfell er eldstöð með fallegri og heillegri hrauntröð, Búrfellsgjá, sem er um 3,5 km löng. Frá Búrfelli hefur runnið mikið hraun sem þekur um 18 km2 lands í dag. Innan svæðisins eru fornminjar, svo sem Gjáarétt sem er í vesturenda Búrfellsgjár, fyrirhleðslur, Réttargerði og vatnsbólið Vatnsgjá. Náttúruvættið er kjörið til útivistar, umhverfisfræðslu og rannsókna, en Búrfell og nágrenni er vinsælt útivistarsvæði, ekki síst vegna nálægðar þess við þéttbýli höfuðborgarsvæðisins. 

Er markmiðið með friðlýsingunni að vernda eldstöðina ásamt hrauntröðinni en verndargildi svæðisins byggir fyrst og fremst á jarðmyndunum sem hafa hátt vísinda-, fræðslu- og útivistargildi, auk gróðurfars. Þá er friðlýsingunni ætlað að auðvelda umgengni og kynni af náttúruminjum.

Garðahraun

Garðahraun og Vífilsstaðahraun (Svínahraun) eru hlutar hins svokallaða Búrfellshrauns. Hraunin eiga uppruna sinn í Búrfellseldstöðinni og eru talin vera um 8000 ára gömul. Svæðin eru aðgengileg og henta vel til útivistar, fræðslu og rannsókna fyrir áhugamenn jafnt sem vísindamenn. Innan þeirra eru merkar söguminjar, s.s. Berklastígur, sem var útivistarstígur sjúklinga frá berklahælinu á Vífilsstöðum og sk. Atvinnubótastígur, sem lagður var í atvinnubótavinnu frostaveturinn 1918, en var aldrei tekinn í notkun. 

Markmið friðlýsingarinnar er að stofna fólkvang, útivistarsvæði í þéttbýli, þar sem jarðmyndanir, gróðurfar, fuglalíf og menningarminjar, m.a. fornar rústir eru verndaðar. Með friðlýsingunni eru tryggðir möguleikar til útivistar, náttúruskoðunar og fræðslu í náttúrulegu umhverfi.

Hin friðlýstu svæði verða í umsjá Garðabæjar en Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar og Kristín Linda Árnadóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar undirrituðu umsjónarsamninga þess efnis í dag. Samkvæmt samningnum skuldbindur Garðabær sig til að gæta svæðanna og upplýsa almenning um varðveislugildi þeirra.