Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Umhverfisstofnun boðar til ársfundar þann 9. maí næstkomandi að Grand Hótel í Reykjavík klukkan 13. Á fundinum viljum við horfa á árangur, hvað hefur tekist vel á undanförnum árum og hvar þarf að gera betur? Hvaðan erum við að koma og hvert erum við að fara? Mörg brýn mál liggja fyrir í umhverfismálum og ýmsar hugmyndir á lofti um hvernig megi bæta stöðuna. Á fundinum viljum við ræða þrjú mikilvæg viðfangsefni og fá sjónarmið utanaðkomandi aðila.

Oft er talað um að regluverk sé of flókið fyrir fyrirtæki og það þurfi að einfalda. Við viljum hafa regluverk eins einfalt og mögulegt er. Okkur finnst regluverkið líka stundum óþarflega flókið og þungt í vöfum til að sinna okkar störfum. Aðalatriðið er samt árangurinn. Markmiðið hlýtur að vera að ná eins góðum árangri og við getum í umhverfismálum með eins einföldu regluverki og völ er á. Einfaldara regluverk sem skilar verri árangri getur varla talist betra. En hvernig getum við einfaldað regluverk og ná jafngóðum eða betri árangri?

Við viljum ræða um eftirlit með mengandi starfsemi. Stofnunin ákvað árið 2008 að gera umfangsmiklar breytingar á eftirliti sínu sem komu að fullu til framkvæmda árið 2011. Síðan þá hefur frávikum sem koma fram í eftirliti með mengandi starfsemi fækkað um 50%. Fyrirtækjum sem eru frávikslaus fjölgar og þau eru fljótari að bæta úr frávikum hjá sér. Færri frávik þýða minni mengun og álag á umhverfið. En það má alltaf gera betur.

Ferðamönnum hefur fjölgað nokkuð á undanförnum árum. Þeir eru reyndar miklu fleiri en við sem búum hérna. Í raun er bara ein ástæða fyrir því að þeir vilja koma hingað, náttúra landsins. En ferðamönnum fylgir álag á náttúru landsins og umhverfi. Okkar helstu náttúruperlur eru undir álagi og nokkrar á rauðum lista. Meðal þess sem við þurfum að huga betur að er hvernig við getum stýrt ferðamannastraumnum á þau svæði sem geta tekið við miklum fjölda. Þá fylgir auknum ferðamannastraum aukið álag á umhverfið, m.a. í úrgangi, skólpmálum og neyslu. Hvernig förum við að því að byggja upp græna ferðaþjónustu og vernda náttúruperlurnar okkar?

Í sumum málum höfum við náð miklum árangri, í öðrum þokast í rétta átt og því miður er ástandið hreinlega slæmt í sumu. Að hverju eigum við að einbeita okkur á næstu árum og hvernig getum við náð betri árangri? Vertu með í umræðunni.

Hlökkum til að sjá þig.

Dagskrá

Dagskrá  13.00-15.30

  1. Sigurður Ingi Jóhannsson, umhverfis- og auðlindaráðherra
  2. Kristín Linda Árnadóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar
  3. Árangur í eftirliti með mengandi starfsemi
    1. Stefán Gíslason, umhverfisfræðingur hjá Environice
    2. Sigríður Kristjánsdóttir, teymisstjóri hjá Umhverfisstofnun
    3. Frávikalaus fyrirtæki 2013
  4. Jafngóður eða betri árangur með einfaldara regluverki?
    1. Páll Þórhallsson, skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu
    2. Pétur Reimarsson, forstöðumaður hjá Samtökum Atvinnulífsins
    3. Sigrún Ágústsdóttir, sviðsstjóri hjá Umhverfisstofnun
  5. Stýring, álag og uppbygging á ferðamannastöðum
    1. Guðmundur Ingi Guðbrandsson, framkvæmdastjóri Landverndar
    2. Ólöf Ýrr Atladóttir, ferðamálastjóri
    3. René Biasone, teymisstjóri hjá Umhverfisstofnun
  6. Ari Eldjárn skemmtir
Fundarstjóri er Höskuldur Þórhallsson, formaður umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis.