Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Nýlega hélt ferðamáladeild Háskólans á Hólum sitt árlega göngustiganámskeið og er mikilvægur liður í námi til landvarðaréttinda sem Umhverfisstofnun veitir þeim nemendum deildarinnar sem uppfylla ákveðin skilyrði. Námskeiðið sem varir í þrjá daga er unnið í samstarfi við sjálfboðaliða í náttúruvernd sem René Biasone, teymisstjóri hjá Umhverfisstofnun heldur utan um. Á námskeiðinu var unnið að viðgerð göngustígs upp í Gvendarskál og þurftu nemendur að erfiða upp mikinn bratta með verkfæri sín (um 350 m hækkun). Námskeiðið gefur góða innsýn inn í það mikla verk sem viðhald og lagning göngustíga er og mikilvægi slíkra innviða fyrir náttúruvernd sem og ferðaþjónustu á Íslandi. 

Meðal annarra verkefna var gert við þrep og brýr og jafnframt var fjölfarnasta göngubrúin endurnýjuð, enda hluti hennar orðinn fúinn og nokkur göt kominn í hana. Brúin, sem var á sínum tíma lögð af nemendum ferðamáladeildar, hafði þó enst í 9 til 10 ár sem verður að teljast stórgóð ending. Námskeiðið er í umsjón Kjartans Bollasonar, lektor við ferðamáladeild Háskólans á Hólum. Auk hans komu þeir Rene Biasone, teymisstjóri hjá UST, Roger Whysall og Ross Packman, langtímasjálfboðaliðar hjá UST, að kennslunni.

Myndir