Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Fyrrihluta árs var ný landsáætlun um meðhöndlun úrgangs gefin út af umhverfis– og auðlindaráðuneytinu. Áætlunin hefur yfirskriftina úrgangsstjórnun til framtíðar og gildir fyrir tímabilið 2013–2024. Er henni ætlað að koma í stað fyrri landsáætlunar sem gefin var út árið 2004. Í landsáætluninni er gerð grein fyrir stefnu stjórnvalda í úrgangsmálum og þar er að finna ítarlegt yfirlit yfir núverandi stöðu úrgangsmála hér á landi, bæði yfir magn einstakra úrgangsflokka og þróun mismunandi leiða í meðhöndlun úrgangs. Áætlunin á þannig að nýtast sem grunnur fyrir svæðisáætlanir sem sveitarstjórnum ber að útbúa. Í landsáætluninni er einnig kafli um framtíðarsýn þar sem fjallað er um líklega og fyrirsjáanlega þróun mála á næstu árum og um þá þætti sem helst munu hafa áhrif á þessa þróun, auk þess sem sett eru fram tímasett markmið sem miða að því að bæta nýtingu auðlinda og lágmarka þau neikvæðu áhrif sem myndun og meðhöndlun úrgangs hefur á umhverfið og heilsu manna. Eitt þessara tímasettu markmiða beinist að samræmdri flokkun heimilisúrgangs á landsvísu. 

Á haustdögum réðist Umhverfisstofnun einmitt í gerð könnunar á vilja sveitarfélaga og rekstraraðila sem starfa í úrgangsgeiranum til að koma á slíkri flokkun. Af þeim sem svöruðu könnuninni og létu í ljós afstöðu voru 70% þátttakenda sem lýstu yfir vilja til að koma á samræmdri flokkun af einhverju tagi en 30% ekki. Niðurstöðurnar leiddu í ljós nokkurn mismun á afstöðu sveitarfélaga og einkaaðila því 87% af þeim sveitarfélögum, og félögum í eigu sveitarfélaga, sem tóku afstöðu höfðu vilja til samræmdrar flokkunar á meðan 20% einkaaðila sýndu slíkan vilja. Niðurstöðurnar leiddu einnig í ljós að meðal þeirra sem sýndu vilja til samræmdrar flokkunar er vilji til að ganga nokkuð langt við samræminguna, t.d. með því að samræma fjölda sorpíláta við hvert heimili. 

Í apríl var reglugerð um raf– og rafeindatækjaúrgang breytt sem hafði í för með sér að tollafgreiðsla raf– og rafeindatækja sem falla undir reglugerðina er nú háð því að viðkomandi framleiðendur og innflytjendur séu aðilar að svokölluðum skilakerfum og þeir skráðir í sérstakt skráningarkerfi hjá Umhverfisstofnun. Þetta er gert til að tryggja að ekki sé mögulegt að flytja inn raf– og rafeindatæki í atvinnuskyni nema fyrir liggi ábyrgð viðkomandi framleiðenda og innflytjenda á raf– og rafeindatækjunum þegar notkun þeirra verður hætt og þau verða að úrgangi. Breytingin hefur óveruleg áhrif á einstaklinga sem flytja inn raf– og rafeindatæki til einkanota. Í júní stóð Umhverfisstofnun fyrir opnum kynningarfundi þar sem þessi breyting var kynnt og fjallað um afleiðingar hennar. Á fundinum voru flutt erindi frá umhverfis– og auðlindaráðuneytinu, Tollstjóra og Umhverfisstofnun, auk þess sem fulltrúar þessara stofnana sátu fyrir svörum. 

Síðla ársins var lagt fram á Alþingi frumvarp til laga um breytingu á núgildandi lögum um meðhöndlun úrgangs. Frumvarpið felur meðal annars í sér innleiðingu Evróputilskipunar um úrgang sem sett var árið 2008. Frumvarpið felur einnig í sér breytingar á framleiðendaábyrgð vegna rafhlaðna og rafgeyma, raf– og rafeindatækja og drykkjarvöruumbúða. Eftir fyrstu umræðu um frumvarpið gekk það til umhverfis– og samgöngunefndar þar sem það er nú til umfjöllunar.