Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Helgina 4 – 6 júlí verður haldin sannkölluð fjölskylduhelgi í Vatnsfirði. Boðið verður upp á sögustundir, náttúruskoðun og ratleik fyrir alla fjölskylduna. Einnig verður farið í fjölskyldugöngur í Náttúruvættið Surtarbrandsgil og skoðað hvernig flóra Íslands var fyrir 11 milljón árum síðan. 

Dagskrá

Föstudagurinn 4. júlí

  • Klukkan 16:00-17:30: Fjöruferð með Evu Dögg Jóhannesdóttur líffræðing hjá Náttúrustofu Vestfjarða. Mæting við Hótel Flókalund. Gengið verður um fjörur í nágrenninu. Lífið í fjörunni er ótrúlega fjölskrúðugt og munum við lyfta hverjum steini og skoða það sem fyrir augum ber. 

Laugardagurinn 5. júlí

  • Klukkan 11:00-12:00: Horft til fortíðar með Heiðrúnu Eva Konráðsdóttir safnstjóri á Minjasafni Eigils Ólafssonar. Mæting við Hótel Flókalund. Hvernig voru leikföng krakka fyrir tíma tölvutækninnar? Við ætlum að skyggnast inn í fortíðina og skoða leikföng Vestfirskra barna. Klukkan 13:00-15:30: Ganga í Surtabrandsgil með landverði. Mæting við miðasölu ferjunnar Baldurs á Brjánslæk. Í gilinu er að finna sönnun þessa að fyrir um 11 miljón árum síðan var náttúra Íslands allt öðruvísi en hún er í dag. 
  • Klukkan 17:00-18:00: Ratleikur! Mæting við Hótel Flókalund. Hressir krakkar á öllum aldri fá að spreyta sig í að leysa gátur og lesa fróðleik um svæðið. Sett verða upp ílát á vel völdum stöðum í grennd við hótelið. Hver vísbending leiðir mann að næsta stað og fá krakkarnir samtímis að fræðast um atburði sem gerst hafa í friðlandinu. Foreldrar, ömmur, afar, frænkur og frændur eru hvattir til að vera með. 

Sunnudagurinn 6 júlí

  • Klukkan 11:00-12:00: Sögustund við Gíslahelli með landverði. Mæting á bílastæðið í Hörgsnesi. Gísli Súrsson var kappi mikill sem var dæmdur í útlegð fyrir afbrot. Hann var á flótta í 14 ár og dvaldi meðal annars í nágrenni Vatnsfjarðar. Eftir honum er nefndur hellir í Hörgsnesi en talið er að hann hafi falið sig þar fyrir óvinum sínum. Auk þess að heyra af ævintýrum hans fá allir krakkar sem koma að skríða ofan í Gíslahellir sem er lítil og óvistleg hola, en mjög góður felustaður. 
  • Klukkan 13:00-15:30: Ganga í Surtabrandsgil með landverði. Mæting við miðasölu ferjunnar Baldurs á Brjánslæk. Í gilinu er að finna sönnun þessa að fyrir um 11 miljón árum síðan var náttúra Íslands allt öðruvísi en hún er í dag. 

Mikilvægt er að allir klæði sig eftir veðri og vera í góðum skóm. Landverðir verða með blóma- og fuglahandbókina ásamt kíki. Ekki er verra að koma með sín eigin tól, svo sem handbækur, kíki eða stækkunargler. 

Nánari upplýsingar hjá landverði í síma 822 – 4030.