Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Árið 2008 voru einungis fjögur íslensk fyrirtæki með Svansleyfi en voru í lok árs orðin 26 talsins og hefur Svanurinn því rúmlega sexfaldast á þessum tíma. Árið 2013 bættust við þrjú ný Svansleyfi og fleiri umsækjendur eru langt komnir. Prentsmiðjan Litróf bættist í ört stækkandi hóp Svansvottaðra prentsmiðja, en þær eru nú níu talsins. Fyrsta mötuneyti landsins fékk Svansvottun í mars en það var mötuneyti Landsbankans í Austurstræti. Farfuglaheimilið Loft er þriðja Svansvottaða farfuglaheimilið á Íslandi en hin tvö eru Farfuglaheimilið í Laugardal og á Vesturgötu. Gaman er að geta þess að við endurgerð húsnæðisins var tekið tillit til umhverfismála í hvarvetna og árangurinn fer ekki fram hjá neinum. 

Haustið 2011 fór af stað verkefnið „Ágætis byrjun“ og fólst í því að nýbökuðum foreldrum var gefinn lítill poki með ítarlegum bæklingi um efni í umhverfi barna ásamt prufum af nokkrum Svansvottuðum ungbarnavörum. Skömmu eftir að verkefnið fór af stað barst Samkeppniseftirlitinu kvörtun vegna verkefnisins en einnig vegna kynningarstarfsemi Svansins almennt. Samkeppniseftirlitið skilaði ákvörðun þar sem segir að aðgerðir Umhverfisstofnunar raski ekki samkeppni í skilningi samkeppnislaga. Tekið var fram að umhverfisvottanir skapi sérstaka eftirspurn um eiginleika vöru og þjónustu sem neytendur myndu annars ekki koma auga á án verulegs tilkostnaðar. Með kynningarstarfi sínu og verkefninu Ágætis byrjun hefur Svanurinn stuðlað að æskilegri samkeppni á grænum markaði og nauðsynlegri upplýsingagjöf til neytenda. 

Þann 9. apríl 2013 var ný stefna um vistvæn innkaup og grænan ríkisrekstur undirrituð af fjármála- og efnahagsráðherra og umhverfis- og auðlindaráðherra. Í stefnunni er fjallað um hvernig samþætta megi umhverfissjónarmið góðum innkaupaháttum hjá ríkinu og hvernig opinberir aðilar geti gert rekstur sinn grænni. Umfang innkaupa ríkisins er um 150 milljarðar króna á ári. Með kaupmætti sínum og eftirspurn getur ríkið því haft gríðarleg áhrif á þróun á markaði, á vöru- og þjónustuframboð og verið drifkraftur nýsköpunar. 

Ráðstefna Svansins fyrir leyfishafa og umsækjendur var haldin í veislusal hins Svansvottaða veitingastaðar Nauthóls 20. nóvember 2013. Þema ráðstefnunnar að þessu sinni var „Sjónum beint að innkaupamálum“ og voru m.a. haldnar mjög áhugaverðar kynningar um reynslu Landspítalans og ÁTVR af umhverfisstarfi og vistvænum innkaupum. Þetta eru aðilar sem setja umhverfismál í forgang og því áhugavert að heyra hvernig þau nálgast sín innkaup, samskipti við birgja og markmiðasetningu í þessum málum. 

Einnig var Innkaupanetið kynnt til sögunnar en það hefur verið starfrækt á Norðurlöndunum um árabil með góðum árangri, og verður stofnað á Íslandi á árinu 2014. Hugsunin er að meðlimir þess verði fyrirtæki sem vilja minnka sín umhverfisáhrif með vistvænum innkaupum, og veitir Innkaupanetið þeim stuðning, aðhald og leiðbeiningar um hvernig gott er að bera sig að. Svansvottuðum fyrirtækjum er velkomið að taka þátt en félagsskapurinn er fyrst og fremst hugsaður fyrir fyrirtæki sem ekki getað fengið Svansvottun, svo sem banka, opinberar stofnanir, verkfræðistofur, tryggingafélög, skólastofnanir o.fl.