Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Umhverfisstofnun hefur gert samninga við sveitarfélög til þriggja ára um refaveiðar. Að þremur árum liðnum er áætlað að fyrir liggi betri upplýsingar um stofnstærð refsins um land allt sem og frekari upplýsinga um tjón.

Refastofninn hefur líklega meira en tífaldast á síðustu 30 árum, eftir að hafa verið í sögulegri lægð. Þetta má að öllum líkindum rekja til bættra lífsskilyrða svo sem vegna aukins fæðuframboðs, en t.d. hefur fýl og heiðagæs fjölgað mikið á sama tímabili.

Til að geta metið hvar sé rétt að leggja áherslu á veiði refa, og með hvað hætti það er gert, þarf að afla betri gagna um það tjón sem refur veldur og festa í sessi með hvaða hætti tjón er metið. Aukið veiðiálag gæti í einhverjum tilvikum haft öfug áhrif miðað við það hver ætlunin var í upphafi og stofninn gæti stækkað í kjölfarið en uppistaðan yrði yngri dýr en áður og hugsanlega veikari stofn og viðkvæmari. Í ljósi ofanritaðs þá leggur Umhverfisstofnun til að ekki verði breytt mikið út frá tilhögun síðustu ára við refaveiðar. Að mati stofnunarinnar væri rétt að þremur árum liðnum yrði tekin ákvörðun um það hver sé ákjósanleg verndarstaða refastofnsins, þó alltaf verði að taka tillit til mismunandi aðstæðna og meta veiðiálag í ljósi þess tjóns sem refurinn er talinn valda á einstökum stöðum. Ákvörðun um framtíðarveiðiálag á refastofninn yrði tekin í kjölfarið. Mikilvægt er að sátt náist um stefnumörkun í málaflokknum hvað þetta atriði varðar.

Áætlunin til næstu þriggja ára var unnin að höfðu samráði við Sambandi íslenskra sveitarfélaga og einnig var hún til umfjöllunar á samráðsvettvangi með sambandinu og Náttúrufræðistofnun Íslands, auk þess sem óskað var eftir umsögnum frá öllum sveitarfélögum og af heimasíðu stofnunarinnar.

Lögð er áhersla á eftirfarandi atriði:

  • Veiðiálag verði sem næst óbreytt en áætlunin verði endurskoðuð árlega á samningstímanum.
  • Greitt verði fyrir refaveiðar samkvæmt samkomulagi milli Umhverfisstofnunar og sveitarfélaga, sem byggi á þeirri áætlun sem sveitarfélagið/félögin leggja fram.
  • Tekið verði tillit til sanngirnissjónarmiða, þ.e. að fámenn en landstór svæði gætu fengið hlutfalllega hærri kostnað greiddan en stór sveitarfélög sem eru landlítil og/eða þar sem ágangur refa er ekki vandamál.
  • Sátt náist um hvað leggja beri til grundvallar við mat á tjóni af völdum refa.
  • Veiðiálag á tilteknum svæðum verði metið og ákveðið í ljósi þess tjóns sem refur er talinn valda á viðkomandi svæði.
  • Miðlæg skráning grenja verði hjá Umhverfisstofnun
  • Lögð verði áhersla á veiðálag (grenjavinnslu eða vetraveiði) í samræmi við áætlað tjón eftir svæðum.
  • Efla samvinnu varðandi refaveiðar á milli sveitarfélaga.
  • Lagt er til að sveitarfélög sem eru með meðalveiðar upp á 10 refi á ári, eða færri, yfir þetta tímabil gangi inn í áætlun með öðru sveitarfélagi/sveitarfélögum.
  • Skoðað verði hvort umbuna eigi sérstaklega fyrir góða upplýsingagjöf, s.s. vegna mats á tjóni og grenjaskráningu.

Sveitarfélögunum var raðað niður eftir fjölda íbúa á ferkílómetra og flokkuð með þeim hætti með mismunandi endurgreiðsluhlutfall (sjá nánar í töflu). Endurgreiðsluhlutfallinu er skipt niður í fjóra flokka 33%, 30%, 20% og 10% þar sem fámennustu og landstærstu sveitarfélögin falla í efsta flokk og svo framvegis.

Umhverfisstofnun kallaði eftir áætlunum frá sveitarfélögunun í maí s.l. Alls bárust 58 áætlanir en einungis 54 af þeim fólu í sér kostnað af hálfu sveitarfélags vegna refaveiða. Stofnunin hefur í kjölfarið gert drög að samningum við sveitarfélögin þar sem áhersluatriði hér að ofan eru höfð að leiðarljósi. Samingsdrögin eru til umsagnar hjá sveitarfélögunum til 22. ágúst og stefnin stofnunin að því að gera samninga við þau í kjölfarið. Fyrstu endurgreiðslur koma til greiðslu á þessu ári fyrir árið 2014. Skv. fjárlögum þessa árs er gert ráð fyrir 30 milljón króna endurgreiðslu árlega næstu þrjú árin.

Tengd skjöl