Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Lönd Evrópu gætu skapað fleiri störf og ýtt undir nýsköpun með skilvirkari auðlindanýtingu, að því er fram kemur í niðurstöðum nýrrar skýrslu EEA, Umhverfisstofnunar Evrópu. Í skýrslunni er bent á margs konar stefnumótun sem getur aukið umhverfislegan og efnahagslegan ábata.

Þrátt fyrir að þróunin sé í rétta átt á mörgum sviðum umhverfismála þá þarf Evrópusambandið að gera gagngerar breytingar á efnahagskerfi sambandslandanna ef það ætlar að ná langtímamarkmiðum sínum, segir í skýrslunni. Til dæmis setti Evrópusambandið það markmið árið 1990 að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 80 til 95% fyrir árið 2050. Það næst ekki með því eingöngu að treysta á stigvaxandi samdrátt í losun vegna skilvirkari framleiðslu.

„Nýsköpun er líklega einn mikilvægasti hvatinn til að breyta hversu óskilvirkt við notum auðlindir okkar í dag,“ segir Hans Bruyninckx forstjóri Umhverfisstofnunar Evrópu. „Græn nýsköpun er leiðin til að takast á við áskoranir 21. aldarinnar, að mínu mati. Ef við viljum ekki ganga of nærri vistkerfi jarðarinnar eins og umhverfisáætlun ESB kveður á um, þurfum við að treysta mjög mikið á nýsköpun í Evrópu. Þetta á ekki bara við um nýjar uppfinningar – hvatning til upptöku og miðlunar á nýrri grænni tækni, það kann að vera enn mikilvægara.“

Önnur leið til að auka skilvirkni auðlindanýtingar gæti verið að draga úr sköttum á vinnuafl eins og tekjuskatti, og leggja þess í stað skatta á óskilvirka auðlindanotkun og umhverfismengun. Slíkir umhverfisskattar gætu aukið atvinnusköpun en eru of lítið notaðir innan Evrópusambandsins, jafngilda aðeins 2,4% af vergri landsframleiðslu árið 2012. Ávinningurinn gæti verið margvíslegur – lönd sem hafa hæstu umhverfisskattana skora um leið hátt þegar kemur að vistvænni nýsköpun og samkeppnishæfni.

Öflug umhverfisreglusetning gæti gefið Evrópusambandinu samkeppnisforskot, ef hún tekur gildi nógu snemma, segir í skýrslu EEA, Umhverfisstofnunar Evrópu. Því til staðfestingar má benda á að önnur lönd sem vilja flytja inn vörur í Evrópusambandið eru hægt en örugglega að tileinka sér leiðir ESB, eins og þær sem draga úr útblæstri bíla og takmarka skaðleg efni.