Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Hreindýraveiðar hafa farið mjög hægt af stað í ár. Í dag hafa innan við 400 dýr veiðst af 1277 dýra kvóta. Veður hefur verið nokkuð gott á veiðisvæðum undanfarna daga en því miður eru afar fáir veiðimenn að veiðum. 

Umhverfisstofnun vill hvetja veiðimenn til að halda til veiða sem fyrst. Óheppileg hefð er að skapast fyrir því að meginþorri veiðimanna haldi til veiða síðari hluta veiðitímabilsins. Það getur valdið öngþveiti á sumum veiðisvæðum þegar mikill fjöldi sækir á sömu veiðislóðir sama daginn. Ekki er heldur á vísan að róa með gott veður síðari hluta veiðitímabilsins. Þoka og úrkoma getur haft mikil áhrif á veiðiferðir – svo ekki sé minnst á áhrif hugsanlegs eldgoss fari svo illa að gos hefjist. 

Undirbúningur veiðiferðar er stór hluti þeirrar ánægju sem veiðimenn fá út úr veiði. Það er því mjög heppilegt að skipuleggja ferðir tímanlega í samráði við leiðsögumann. Þeir sem eiga eftir að útvega sér leiðsögumann eru því hvattir til að gera það sem allra fyrst. Heimilt er að veiða tarfa til og með 15. september og kýr til og með 20. september. Nokkrir veiðimenn munu veiða kýr á svæðum 8 og 9 í nóvember en aðrir þurfa að ljúka veiðinni fyrir þann tíma.