Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Geert Dancet, forstjóri Efnastofnunar Evrópu, heimsótti Ísland fyrir helgi og ræddi framkvæmd efnalöggjafarinnar hér á landi. Hann fundaði með fulltrúum Umhverfisstofnunar og Umhverfis- og auðlindaráðuneytis og einnig fulltrúum annarra eftirlitsstjórnvalda, s.s. fulltrúum frá samtökum atvinnulífsins og iðnaðinum. 

Efni, efnablöndur og hlutir sem innihalda efni eru allt í kringum okkur og gilda um þau ákveðnar reglur til að lágmarka áhættu sem fylgir notkun þeirra. Íslensk löggjöf í þessum málaflokki byggir á löggjöf Evrópusambandsins og fylgir Ísland þannig stefnu sambandsins. 

Efnastofnun Evrópu vinnur við að vernda heilsu manna og umhverfið með því að stuðla að öruggri notkun efna, og að hættulegustu efnunum sé skipt út fyrir öruggari valkost. Stofnunin heldur m.a. utan um áhættumat á efnum, aðstoðar fyrirtæki við að fylgja löggjöfinni og vinnur að samræmingu á framkvæmd löggjafarinnar innan Evrópu. Ísland tekur þátt í Evrópusamstarfi Efnastofnunar Evrópu og er Umhverfisstofnun fulltrúi Íslands. 

Geert Dancet ræddi í heimsókn sinni við Arnhildi Hálfdánardóttir fréttamann Spegilsins á RÚV um efnalöggjöfina og kom m.a. fram í spjalli þeirra að 160 efni eru nú á lista Efnastofnunar Evrópu yfir sérlega hættuleg efni. Markmiðið er að finna og skrá þau öll fyrir árið 2020. Efnin eiga það sameiginlegt að valda sjúkdómum eða safnast upp í lífverum. Sum leiða til alvarlegra truflana á hormónastarfsemi og frjósemi karla getur þannig minnkað.