Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Hárlitir geta innihaldið ýmis ofnæmisvaldandi efni og eru þekkt ofnæmisviðbrögð roði, útbrot, upphleypt húð og sár í hársverði, andliti og/eða hálsi og bólgur í andliti. Umhverfisstofnun kannaði merkingar og innihald hárlita á markaði hér á landi síðast liðið vor og voru tólf innflutningsfyrirtæki og sjö verslanir heimsótt. 

Algengasta frávikið reyndist vera að skyldubundnar viðvörunarmerkingar á íslensku vantaði, þá einkum á umbúðir hárlita sem seldir eru fagaðilum og sem fluttir eru inn frá landi utan EES svæðisins. Gerðar voru kröfur um úrbætur ef fram komu frávik. 

Viðbrögð fyrirtækjanna við niðurstöðu eftirlits voru í langflestum tilfellum jákvæð og samskipti og samvinna við Umhverfisstofnun í nær öllum tilfellum góð. Öll fyrirtækin leituðu til Umhverfisstofnunar til að fá nánari upplýsingar um kröfur sem gilda um hárliti og leiðir til úrbóta vegna frávika. Öll fyrirtækin hafa nú uppfyllt kröfur um úrbætur. 

Þetta er fyrsta eftirlitsverkefni Umhverfisstofnunar með snyrtivörum á markaði en samkvæmt nýlegum efnalögum, nr. 61/2013, er hlutverk Umhverfisstofnunar m.a. að hafa eftirlit með markaðssetningu efna og efnablanda sem falla undir lögin. Stofnunin ákvað að hefja eftirlit sitt á þessari gerð snyrtivara vegna hættu á ofnæmisáhrifum hárlita, vegna mikilvægi þess að fræða neytendur, innflytjendur og söluaðila um hættuna og vegna mikilvægi þess að merkingar hárlita uppfylli ákveðnar kröfur. 

Á undanförnum árum hefur Evrópusambandið látið áhættumeta efni í hárlitum. Í ljós hefur komið að mörg þeirra geta verið ofnæmisvaldandi, þá helst p-Phenylenediamine (PPD). Önnur dæmi um slík efni í hárlitum eru toluene-2,5-diamine, resorcinol, 4-amino-2-hydroxytoluene og p-aminophenol. Þessi efni eru leyfð í hárlitum upp að ákveðnum styrk og eru viðvörunarmerkingar á umbúðum hárlita, eða á fylgiseðli, skylda ásamt því að fram komi að hárliturinn innihaldi efnin.