Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Stök frétt

17. september 2014 | 13:05

Dagur íslenskrar náttúru hjá Umhverfisstofnun

Hátíðarathöfn Umhverfis- og auðlindaráðuneytisins á Degi íslenskrar náttúru fór að þessu sinni fram í húsakynnum Umhverfisstofnunar. Um eitt hundrað gestir sóttu stofnunina heim af þessu tilefni og hlýddu á tónlistaratriði og þáðu pönnukökur, kleinur og kaffi.

Ráðherra afhenti tvenn verðlaun við þetta tækifæri. RÚV – hljóðvarpi og sjónvarpi, fjölmiðlaverðlaun umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og Tómasi J. Knútssyni, Náttúruverndarviðurkenningu Sigríðar í Brattholti. RÚV hlaut verðlaunin fyrir ítarlega og vandaða umfjöllun um almannarétt og gjaldtöku fyrir aðgang að náttúruperlum á liðnu ári. Tómas hlaut Náttúruverndarviðurkenningu Sigríðar í Brattholti fyrir óeigingjarnt hreinsunarstarf við strendur landsins með Bláa hernum sem Tómas stofnaði árið 1995.

 

   
   
 

Í gærkvöldi fór starfsfólk Umhverfisstofnunar í gönguferð um Norðurnes á Álftanes sem Tómas Knútsson leiddi. Naut göngufólk útivistar, einstakrar náttúrufegurðar á þessu svæði og að sjálfsögðu var Tómas með ruslapokann meðferðis og hvarf nokkuð af plasti og öðrum óhreindinum á leiðinni. Í fjörunni nyrst á nesinu sagði Tómas frekar frá starfi Bláa hersins en óhætt er að segja að Tómas sé lifandi sönnun þess að hver og einn getur lyft Grettistaki í umhverfisvernd ef viljinn er fyrir hendi.

Umhverfisstofnun óskar landsmönnum öllum til með hamingju með Dag íslenskrar náttúru.